George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, viðurkenndi í dag að hann hefði orðið hissa þegar hann frétti af afhjúpun hins svonefnda „Deep Throat“ heimildarmaður bandarísku blaðamannanna Bob Woodward og Carl Bernstein sem áttu einna stærstan þátt í að fletta ofan af Watergatehneykslinu svonefnda á fyrri hluta áttunda áratugar síðustu aldar.
Watergatemálið varð til þess að Richard Nixon, sem var repúblikani líkt og Bush, neyddist til að segja af sér embætti forseta Bandaríkjanna árið 1974.
„Ég get aðeins sagt ykkur að ég varð hissa þegar þetta var opinberað. Og ég hlakka til þess að lesa um það, lesa um samskipti hans við fjölmiðla,“ sagði Bush við blaðamenn eftir að hann fundaði í dag með Thabo Mbeki, forseta Suður-Afríku.
Bandaríska tímaritið Vanity Fair hefur í nýjasta eintaki sínu eftir Mark Felt, fyrrum embættismaður hjá bandarísku alríkislögreglunni FBI, að hann hafi verið hinn svonefndi „Deep Throat.“ Staðfestu blaðið Washington Post og blaðamennirnir Woodward og Bernstein þetta í gær.
Bush sagði að þetta hefði verið „mikil frétt sem var að gerast þegar ég var ungur maður.“ „Fyrir þau okkar sem útskrifuðumst úr háskóla seint á sjöunda áratugnum var Watergatemálið nokkuð sem skipti máli. Og mörg okkar hafa ávallt velt því fyrir sér hvert Deep Throat hafi verið. Og gátan leystist í gær,“ sagði Bush.