Höfnun Hollendinga og Frakka á stjórnarskrá ESB vekur „áleitnar spurningar“

Fylgismenn Sósíalistaflokksins í Hollandi fagna eftir að fyrstu niðurstöður eftir …
Fylgismenn Sósíalistaflokksins í Hollandi fagna eftir að fyrstu niðurstöður eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna voru birtar í kvöld. AP

Höfnun hollenskra og franskra kjósenda á fyrirhugaðri stjórnarskrá Evrópusambandsins (ESB) vekur „áleitnar spurningar“ um framtíðarstefnu ESB, að því er Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, sagði í kvöld. Meðal annarra leiðtoga sem lýst hafa áhyggjum af stöðu mála eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna í Hollandi í dag, er Jacques Chirac, Frakklandsforseti, sem tók í sama streng og Straw.

„Þessi neikvæða niðurstaða í landi sem er eitt stofnríkja sambandsins og hefur beitt sér fyrir uppbyggingu Evrópu sýnir að miklar væntingar, vangaveltur og áhyggjur eru fyrir hendi varðandi samrunaferli Evrópu,“ sagði í yfirlýsingu frá skrifstofu Chiracs í kvöld. Frakkar höfnuðu stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag. Chirac sagði jafnframt að nú væri nauðsynlegt að „taka nægan tíma til þess að gaumgæfa hvaða afleiðingar kosningarnar í Frakklandi og Hollandi hafa í för með sér fyrir Evrópusambandið.“

Eftir að rúmur helmingur atkvæða hafði verið talinn í Hollandi í kvöld, höfðu 62,6% kjósenda hafnað stjórnarskránni, að því er fram kom hjá hollensku fréttastofunni ANP.

Nauðsynlegt að halda staðfestingarferlinu áfram

Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, sagði eftir atkvæðagreiðsluna í Hollandi, að staðfestingarferli stjórnarskrárinnar yrði að halda áfram þrátt fyrir að Frakkar og Hollendingar hefðu hafnað henni.

Schröder sagðist „virða en harma mjög ákvörðun kjósenda í hollensku atkvæðagreiðslunni,“ en hann styddi þó stjórnarskrársáttmálann sem þegar hefur verið staðfestur í Þýskalandi.

„Ég er sannfærður um að við þurfum á stjórnarskránni að halda ef við viljum lýðræðislega, félagslega sinnaða og öfluga Evrópu,“ sagði kanslarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert