Hollensk stjórnvöld segjast ætla að virða niðurstöðuna

Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, kemur í sjónvarpsviðtal í kvöld …
Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, kemur í sjónvarpsviðtal í kvöld eftir að ljóst varð að Hollendingar höfðu hafnað stjórnarskrá ESB. AP

Jan Peter Balkenende, forsætisráðherra Hollands, lýsti því yfir í kvöld að Hollendingar hefðu hafnað nýrri stjórnarskrá Evrópusambandsins, en útgönguspár bentu til þess að 63% hefðu sagt nei en 37% já. Leiðtogar Evrópusambandsins munu ræða úrslitin í Hollandi og Frakklandi á fundi um miðjan júní.

„Hollenska þjóðin hefur lýst skoðun sinni í dag. Þetta eru skýr úrslit. Auðvitað er ég afar vonsvikin. En það er ljóst að við munum virða þessa niðurstöðu," sagði Balkenenda í sjónvarpsviðtali. Atkvæðagreiðslan var ekki bindandi en stjórnvöld höfðu sagt að þau myndu virða niðurstöðuna ef kjörsókn færi yfir 30%. Ljóst er að kjörsókin fór yfir 50%.

„Við eigum við alvarlegt vandamál að etja, en við verðum að halda verki okkar áfram," sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í kvöld. Hann sagðist myndu spyrja leiðtogafund ESB 16.-17. júní ráða.

Aðrir leiðtogar ESB hvöttu til þess, eins og eftir atkvæðagreiðsluna í Frakklandi á sunnudag, að staðfestingarferlinu yrði haldið áfram í öðrum ESB-ríkjum þrátt fyrir að bæði Frakkar og Hollendingar hafi hafnað stjórnarskránni.

Balkenende sagði í kvöld, að Holland myndi áfram styðja Evrópusambandið og ekki mætti líta á úrslitin sem áfellisdóm yfir evrópskri samvinnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert