Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði í dag að það væri bæði „hættulegt“ og „heimskulegt“ fyrir önnur aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) að líta framhjá þeirri staðreynd að hollenskir og franskir kjósendur hefðu hafnað fyrirhugaðri stjórnarskrá sambandsins.
„Mesta hættan nú, og það sem væri heimskulegast stjórnmálalega séð, væri að senda þau skilaboð að við ætlum ekki að láta þetta hafa áhrif á okkur. Það er ljóst að þetta hefur áhrif,“ sagði Persson í samtali við sænsku fréttastofuna TT.
Persson sagði að meðal evrópskra leiðtoga væru sú hugsun nú ríkjandi að menn ættu að leiða niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslnanna hjá sér, en þeir væru á villigötum.
Hann sagðist vonast til þess að á ráðstefnu Evrópusambandsins, sem fram fer í Brussel í Belgíu 16 til 17. júní, muni eiga sér stað „árangursrík umræða um framhaldið.“
Persson sagði að ef Frakkar eða Hollendingar færu fram á að stjórnarskráin yrði endurskoðuð í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslnanna þar, myndi staðfestingarferli stjórnarskrárinnar „truflast algjörlega.“
Sænska þingið á að kjósa um stjórnarskrána fyrir lok ársins. Sænska stjórnin ítrekaði í gærkvöldi að engar breytingar væru fyrirhugaðar á þessu.