Ljóstrað var upp um eitt best geymda leyndarmál bandarískrar blaðamennsku í vikunni, þegar hinn dularfulli heimildamaður Washington Post, svonefndur „Deep Throat", gaf sig loks fram, rúmum þremur áratugum eftir að Watergate-hneykslið skók bandarískt samfélag og leiddi til afsagnar Richards Nixons Bandaríkjaforseta. Rannsóknarblaðamaðurinn Bob Woodward lýsir því í grein sinni hvernig hann komst í kynni við Mark Felt er hann var einn af yfirmönnum bandarísku alríkislögreglunnar og fékk hann til að veita sér upplýsingar sem skiptu sköpum við afhjúpun Watergate-málsins.
Árið 1970, þegar ég þjónaði sem liðsforingi í Bandaríkjaflota, undir stjórn Thomas H. Moorer aðmíráls, fór ég stundum í sendiferðir í Hvíta húsið. Kvöld eitt var ég sendur með pakka á neðri hæð vesturálmunnar, en þar var lítil biðstofa nálægt aðgerðaherbergi forsetans. Það gat orðið löng bið eftir því að rétta manneskjan kæmi út og kvittaði fyrir sendingarnar, stundum klukkustund eða meira, og eftir að ég hafði beðið um hríð kom inn hár maður með óaðfinnanlega snyrt grátt hár og fékk sér sæti nálægt mér. Hann var í dökkum jakkafötum, hvítri skyrtu og með látlaust bindi. Hann var sennilega 25 til 30 árum eldri en ég og hélt á skjalatösku. Hann var virðulegur útlits og hafði yfirbragð sjálfsöryggis, fas og yfirvegun þess sem er vanur að gefa skipanir og að þeim sé fylgt án tafar.
Ég merkti að hann fylgdist grannt með umhverfinu. Það var ekkert yfirþyrmandi við árvekni hans, en augun skutust til í svo að segja herramannslegri eftirgrennslan. Eftir nokkrar mínútur kynnti ég mig.
"Bob Woodward liðsforingi," sagði ég, og bætti við í undirþægum tón, "herra".
"Mark Felt," sagði hann.
Ég fór að segja honum frá sjálfum mér, að ég væri á síðasta árinu í flotanum og væri að koma með skjöl frá skrifstofu Moorers aðmíráls. Felt var ekkert að flýta sér að útskýra hver hann væri eða hvaða erindi hann hefði.
Á þessum tíma var ég í töluverðri óvissu, jafnvel uppnámi, yfir því hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur í lífinu. Ég hafði útskrifast úr Yale árið 1965, þar sem ég hafði verið á skólastyrk frá flotanum, með því skilyrði að ganga til liðs við hann eftir útskrift. Eftir fjögurra ára herþjónustu var kvöðin lengd um eitt ár vegna Víetnam-stríðsins.
Á þessu ári í Washington eyddi ég talsverðri orku í að leita uppi áhugaverða hluti eða fólk. Einn skólabróðir minn réð sig sem aðstoðarmaður hjá forseta hæstaréttar, Warren Burger, og ég reyndi að efla tengslin við hann. Til að bæla angist mína og stefnuleysistilfinningu sat ég námskeið á framhaldsstigi í George Washington-háskóla. Eitt námskeiðið var í Shakespeare og annað í alþjóðastjórnmálum.
Felt tók allur við sér þegar ég minntist á námið og sagði mér að hann hefði numið lögfræði í kvöldskóla í GW á fjórða áratugnum, áður en hann gekk til liðs við bandarísku alríkislögregluna - og þetta var í fyrsta sinn sem hann nefndi FBI. Hann kvaðst hafa verið í fullu starfi hjá öldungadeildarþingmanninum sínum frá Idaho á meðan hann kláraði lögfræðina. Ég sagðist hafa unnið sjálfboðastörf fyrir minn fulltrúardeildarþingmann, John Erlenborn, repúblikana frá Wheaton í Illinois, þar sem ég ólst upp. Við áttum því tvennt sameiginlegt, framhaldsnám við George Washington-háskóla og vinnu fyrir þingmenn frá heimaríkjum okkar.
Við Felt sátum þarna eins og tveir farþegar í löngu flugi, með ekkert að gera annað en að eyða tímanum. Hann sýndi engan áhuga á því að taka upp ítarlegar samræður við mig, en ég var ákafur í því. Að lokum tókst mér að draga upp úr honum að hann væri aðstoðarforstjóri FBI, yfir eftirlitsdeildinni, sem var mikilvæg staða beint undir forstjóranum J. Edgar Hoover. Það þýddi að hann hafði flokka alríkislögreglumanna undir sinni stjórn, sem fóru um skrifstofur FBI víðsvegar um landið og gengu úr skugga um að þar væri verklagsreglum fylgt og farið að skipunum Hoovers. Seinna komst ég að því að þetta var kallað "þjösnagengið".
Hérna var ég kominn í návígi við mann sem var í hringiðu þess leynilega heims sem ég fékk aðeins nasasjón af í verkefnum mínum hjá flotanum, svo ég baunaði á hann spurningum um starf hans og umhverfi. Þegar ég rifja upp þennan tilviljanakennda en örlagaríka fund - einn þann mikilvægasta í lífi mínu - átta ég mig á því að malið í mér hefur líklega hljómað mjög ungæðislegt. Fyrst hann sagði ekki mikið frá sjálfum sér sneri ég samræðum okkar upp í starfsferilsráðgjöf.
Ég sýndi honum fulla virðingu, en hlýt að hafa komið honum fyrir sjónir sem mjög þurfandi. Hann var vingjarnlegur og áhuginn sem hann sýndi mér virkaði á einhvern hátt föðurlegur. Mér er hvað minnisstæðust fjarlæg en formleg framkoma hans, væntanlega afleiðing starfans hjá FBI undir stjórn Hoovers. Ég spurði Felt hvort hann vildi gefa mér símanúmerið sitt og hann gaf mér upp beinu línuna á skrifstofuna sína.
Ég held að ég hafi bara hitt hann einu sinni enn í Hvíta húsinu. En hann hafði bitið á krókinn. Hann komst í hóp þeirra sem ég leitaði ráða hjá um framtíðaráform mín, sem brunnu æ heitar á mér eftir því sem lausn mín úr flotanum nálgaðist. Einhverju sinni hringdi ég í hann, fyrst á skrifstofuna og svo heim til hans í Virginíu. Ég var hálf örvæntingarfullur og hef örugglega sagt honum upp og ofan af vandræðum mínum. Ég hafði sótt um inngöngu í nokkra lagaskóla fyrir haustið, en ég var orðinn 27 ára gamall og var ekki viss um að ég nennti að eyða þremur árum í viðbót í laganám áður en ég kæmist í alvöru starf.
Felt virtist hafa samúð fyrir spurningum þessa týnda unga manns. Hann sagði mér að eftir að hann lauk lagaprófi hefði hann ráðið sig til alríkisverslunarráðsins. Fyrsta verkefni hans var að skera úr um hvort klósettpappír sem merktur væri Rauða krossinum hefði ósanngjarnt samkeppnisforskot þar sem fólk teldi að hann væri samþykktur af Rauða krossinum. Verslunarráðið var hefðbundin alríkisskriffinnskustofnun - hægvirk og steinrunnin - og hann þoldi ekki við. Innan árs hafði hann sótt um hjá FBI og hlotið ráðningu. Ég skildi hann þannig að lögfræðin opnaði flestar dyr, en að ég ætti ekki að flækja mig í eigin hliðstæðu við rannsókn á klósettpappír.
Í allri óvissunni um hvaða braut ég ætti að feta hafði ég sótt um blaðamannsstarf á Póstinum. Einhvern veginn æxlaðist það - ég man ekki nákvæmlega hvernig - að Harry Rosenfeld, fréttastjóri innanbæjarfrétta, féllst á að hitta mig. Hann starði á mig forviða í gegnum gleraugun. Af hverju í ósköpunum vildi ég verða blaðamaður? Ég hefði enga - enga! - reynslu. Af hverju ætti Washington Post að ráða einhvern viðvaning? En að lokum sagði Rosenfeld að þetta væri nógu brjálað til að láta á það reyna, hann myndi gefa mér tveggja vikna reynslutíma.
Að tveimur vikum liðnum hafði ég skrifað eitthvað um tylft frétta eða drög að fréttum. Engin þeirra hafði verið birt eða komist nálægt því að vera birt.
Rosenfeld sagði að ég kynni einfaldlega ekki tökin á þessu og batt miskunnsamlega enda á reynslutímann. En ég yfirgaf fréttastofuna uppnumdari en nokkru sinni fyrr. Þrátt fyrir að ég hefði fallið á prófinu - og það var þokkalegt fall - gerði ég mér grein fyrir því að ég hefði dottið niður á nokkuð sem ég hefði unun af. Ég þáði starf á Montgomery Sentinel í Maryland, þar sem Rosenfeld sagði að ég gæti lært til blaðamanns. Ég sagði föður mínum að laganámið væri úr sögunni og að ég hefði ráðið mig sem blaðamaður á vikulegu fréttablaði fyrir um 115 dollara á viku.
"Þú ert orðinn brjálaður," sagði faðir minn, í eitt af þeim fáu skiptum er hann vandaði um fyrir mér.
Ég hringdi líka í Mark Felt, sem gaf til kynna, á hófstilltari hátt, að honum þætti þetta einnig misráðið. Hann sagði það skoðun sína að dagblöðin væru of yfirborðskennd og fljótfær. Þau köfuðu ekki nógu djúpt og kæmust sjaldnast til botns í málunum.
Ég sagði að hvað sem því liði væri ég í sjöunda himni. Kannski hann gæti hjálpað mér við fréttaöflun?
Ég minnist þess að hann svaraði engu.
Árið sem ég vann hjá Montgomery Sentinel hélt ég sambandi við Felt og hringdi ýmist í hann á skrifstofuna eða heim. Við vorum að verða hálfgerðir vinir. Hann var lærimeistarinn, sem hélt mér frá rannsóknum á klósettpappír, og ég hélt áfram að leita ráða hjá honum. Eina helgina keyrði ég til heimilis hans í Virginíu og hitti eiginkonu hans, Audrey.
Fimm árum eftir afsögn Nixons, árið 1979, gaf Felt út æviminningar sínar, "FBI pýramídinn innan frá", sem vöktu þá nánast enga athygli. Þar vísar hann reiðilega til "klíkunnar í Hvíta húsinu og dómsmálaráðuneytinu".
Á þessum tíma, fyrir daga Watergate-hneykslisins, var togstreitan og heiftin sem ríkti í samskiptum Nixons í Hvíta húsinu og Hoovers hjá FBI ekki á almannavitorði. Rannsóknin á Watergate leiddi síðar í ljós að ungur aðstoðarmaður í Hvíta húsinu, Tom Charles Huston, hefði lagt drög að því að CIA, FBI og leyniþjónusta hersins fengju heimild til að auka rafrænt eftirlit vegna "innlendra ógna við öryggi", til að opna póst og brjótast inn með leynd til að afla gagna.
Það leikur lítill vafi á því að Felt hafi álitið Nixon og samstarfsmenn hans hálfgerða nasista. Á þessum tíma þurfti hann að berjast gegn hugmyndum innan FBI um að bera þyrfti kennsl á alla íbúa allra hippakommúna á Los Angeles-svæðinu, svo dæmi sé nefnt, og að safna ætti gögnum um meðlimi Baráttusamtaka námsmanna fyrir lýðræðislegu samfélagi.
Ekkert af þessu kom beinlínis upp í samræðum okkar, en hann var augljóslega undir þrýstingi, og ógnin við heilindi og sjálfstæði alríkislögreglunnar var honum ofarlega í huga.
1. júlí 1971 - um það bil ári áður en Hoover lést og brotist var inn í Watergate-bygginguna - hækkaði Hoover Felt í tign og gerði hann að þriðja æðsta manni FBI. En næstráðandi Hoovers, Clyde Tolson, var líka heilsuveill og oft fjarverandi frá vinnu, og var því ekki raunverulega við stjórnvölinn. Þannig atvikaðist það að vinur minn fékk með höndum daglega stjórn alríkislögreglunnar, svo fremi sem hann upplýsti Hoover og Tolson um gang mála og leitaði samþykkis Hoovers í stórum málum.
Í ágúst ákvað Rosenfeld að ráða mig í vinnu, ári eftir hinn misheppnaða reynslutíma. Ég hóf störf á Póstinum mánuði síðar. Ég hafði nóg að gera, en hafði reglulega samband við Felt. Hann var tiltölulega örlátur á upplýsingar, en bannaði mér að minnast nokkurn tímann á sig, FBI eða dómsmálaráðuneytið ef ég nýtti mér þær. Hann lagði mér þessar skýru reglur með djúpri, ákveðinni röddu. Ég hét honum þessu. Hann sagði að ég þyrfti að sýna fyllstu varkárni, mætti engum segja að við þekktumst né að ég þekkti einhvern innan FBI eða dómsmálaráðuneytisins. Engum.
Felt var á skrifstofu sinni í höfuðstöðvum FBI um klukkan 9.45 að morgni 2. maí 1972, þegar einn aðstoðarforstjóranna færði honum þau tíðindi að Hoover hefði látist á heimili sínu. Fréttirnar fengu mikið á Felt. Það hefði legið beint við að hann tæki við stjórn stofnunarinnar, en ekki leið á löngu áður en þær vonir urðu að engu. Nixon setti L. Patrick Gray III í embættið. Hann var gamall stuðningsmaður forsetans og hafði látið af störfum í flotanum árið 1960 til að vinna fyrir Nixon í forsetakosningunum sem hann tapaði fyrir John F. Kennedy.
Ég sá ekki betur en að Felt væri niðurbrotinn, en hann bar sig vel. "Ég hefði sagt upp, hefði ég vitað betur," skrifaði hann.
Fyrsta málsgrein forsíðufréttar Póstsins daginn eftir hljóðaði svo: "Fimm menn, þar af einn fyrrverandi starfsmaður leyniþjónustunnar CIA, voru handteknir klukkan 2.30 í fyrrinótt, grunaðir um aðild að því sem yfirvöld lýstu sem flóknu samsæri um að hlera skrifstofur landsnefndar Demókrataflokksins hér."
Daginn eftir skrifuðum við Carl Bernstein fyrstu fréttina okkar saman, þar sem við upplýstum að einn innbrotsmannanna, James W. McCord, væri á launum sem öryggisfulltrúi hjá endurkjörsnefnd Nixons. Á mánudeginum fór ég að grennslast fyrir um E. Howard Hunt, en símanúmer hans var skráð í númerabækur tveggja innbrotsmannanna. Við nafn hans hafði verið krotað "H. húsið" og "H.H.".
Á slíkri stundu var ómetanlegt að eiga heimildamann eða vin innan rannsóknastofnana ríkisvaldsins. Ég hringdi í Felt í gegnum ritara hans hjá FBI. Þetta var í fyrsta sinn sem við ræddum saman um Watergate. Hann minnti mig á að honum líkaði ekki að ég hringdi í hann á skrifstofuna, en sagði að innbrotsmálið í Watergate ætti eftir að "hitna" fyrir sakir sem hann gæti ekki útskýrt. Síðan batt hann skyndilega enda á samtalið.
Mér var falið að halda áfram með fréttina um Watergate-hlerunarmálið um sinn, en var ekki viss um að ég væri með neitt bitastætt í höndunum. Carl var í fríi. Ég tók upp símann og sló inn 456 1414 - númerið í Hvíta húsinu - og bað um Howard Hunt. Hann svaraði ekki en á skiptiborðinu var mér vinsamlega bent á að hann gæti verið á skrifstofu Charles W. Colsons, sérstaks ráðgjafa Nixons. Ritari Colsons sagði að Hunt væri ekki staddur þar í augnablikinu, en hugsanlega væri hægt að ná í hann hjá almannatengslafyrirtæki þar sem hann starfaði líka við skriftir. Ég hringdi þangað og náði í Hunt, og spurði hann hvernig stæði á því að nafnið hans væri að finna í númerabókum tveggja þeirra sem brutust inn í Watergate.
"Guð minn góður!" hrópaði Hunt áður en hann skellti á. Ég hringdi í forstjóra almannatengslafyrirtækisins, Robert F. Bennett, sem er nú öldungadeildarþingmaður repúblikana í Utah. "Ég býst við að það sé ekkert leyndarmál að Howard starfaði fyrir CIA," sagði Bennett blákalt.
Það hafði verið mér hulið, en talsmaður CIA staðfesti að Hunt hefði starfað fyrir stofnunina frá 1949 til 1970. Ég hringdi aftur í Felt á skrifstofuna og spurði hann hvað ég væri með í höndunum varðandi Colson, Hvíta húsið og CIA. Hver sem er getur haft hvaða nafn sem er í númerabókinni sinni og ég vildi ekki dæma neinn á grundvelli þess hverja hann þekkir.
Felt hljómaði taugaóstyrkur. Hann sagði mér í trúnaði - í þeim skilningi að ég mátti ekki nota upplýsingarnar - að Hunt væri sterklega grunaður um aðild að innbrotinu í Watergate, fyrir ýmsar fleiri sakir en að vera nefndur í símanúmerabókunum. Ég þyrfti því ekki að hika við að skrifa um þessi tengsl.
Í júlí fór Carl fór til Miami, en þaðan voru fjórir innbrotsmannanna. Þangað rakti hann peningaslóð og þefaði uppi saksóknara sem hafði í fórum sínum afrit af ávísunum, alls að upphæð 114 þúsund dollara, sem höfðu verið lagðar inn á reikning eins innbrotsmannanna, Bernards L. Barker. Við fengum staðfest að 25 þúsund dollara ávísun kom úr kosningasjóði forsetans og að Maurice H. Stans, formaður fjáröflunarnefndar Nixons, hefði tekið við henni á golfvelli í Flórída. Í fréttinni, sem birtist 1. ágúst, var kosningasjóður Nixons í fyrsta sinn tengdur Watergate.
Ég sagðist geta sætt mig við hvað sem væri.
Við þyrftum að koma okkur upp fyrirfram ákveðnu kerfi til að koma skilaboðum áleiðis - að breyta einhverju í umhverfinu sem enginn annar myndi gefa gaum. Ég skildi ekki hvað hann átti við.
Hann lagði til að ég gæfi sér merki með því að draga frá gluggatjöldin í íbúðinni minni. Hann gæti fylgst með glugganum eða látið einhvern gera það, og ef dregið væri frá gæti hann hitt mig það kvöld á ákveðnum stað. Ég útskýrði fyrir honum að ég vildi hleypa birtunni inn annað slagið.
Við þyrftum þá að finna annað merki, sagði hann, og gaf í skyn að hann gæti látið fylgjast reglulega með íbúðinni minni. Hann útskýrði aldrei hvernig hann færi að því.
Mér fannst ég vera undir vissum þrýstingi og sagði honum að ég ætti lítinn, rauðan fána sem gömul kærasta hefði fundið úti á götu og stungið í blómapott á svölunum hjá mér.
Við Felt sammæltumst um að ég myndi færa blómapottinn með fánanum til á svölunum ef ég þyrfti nauðsynlega að hitta hann. Það ætti að vera sjaldan og af góðu tilefni, sagði hann ákveðinn. Merkið þýddi að við myndum hittast um klukkan tvö þá nótt á neðstu hæðinni í bílastæðakjallara hinum megin árinnar, í Arlington í Virginíu.
Felt sagði að ég þyrfti að fara eftir nákvæmum leiðbeiningum svo mér yrði ekki veitt eftirför. Hann ráðlagði mér hvernig ég ætti að fara út úr íbúðinni og komast á staðinn óséður. Ég mátti ekki taka lyftuna eða fara á mínum eigin bíl, heldur átti ég að klifra niður brunastigann og taka tvo leigubíla og ganga alltaf síðasta spölinn. Ef ég yrði var við eftirför ætti ég ekki að fara niður í bílakjallarann, hann myndi skilja það. Þetta var eins og fyrirlestur. Það væri lykilatriði að taka sér góðan tíma, eina til tvær klukkustundir til að komast á fundarstaðinn. Það væri nauðsynlegt að sýna þolinmæði og rósemd og treysta fyrirkomulaginu. Við höfðum enga varaáætlun. Ef annar okkar mætti ekki yrði ekkert af fundinum.
Felt bætti við að hann myndi koma skilaboðum til mín ef hann hefði upplýsingar fyrir mig. Hann spurði mig um venjur mínar, hvort ég fengi póstinn heim og svo framvegis. Ég sagðist vera áskrifandi að New York Times, líkt og margir íbúar fjölbýlishússins sem ég bjó í nálægt Dupont Circle. Eintökin voru skilin eftir í anddyrinu, merkt íbúðarnúmeri. Ég bjó í íbúð 617 og númerið var ritað skýrum stöfum á blöðin. Felt sagði að ef hann hefði mikilvægar upplýsingar myndi hann skilja eftir skilaboð í New York Times - og ég komst aldrei að því hvernig hann fór að því. Hringur yrði dreginn utan um blaðsíðutalið á síðu 20 og neðarlega á síðunni yrðu teiknaðir klukkuvísar sem sýndu hvenær við ættum að hittast í bílastæðakjallaranum, líklega klukkan tvö þá nótt.
Þetta samband okkar yrði að vera traust og leynilegt, það mætti ekki ræða við neinn.
Það er mér enn ráðgáta hvernig hann gat látið fylgjast með svölunum mínum daglega. Hver sem er hefði getað keyrt inn í sundið bak við húsið til að fylgjast með svölunum, og þær blöstu auk þess við úr fleiri húsum. Nokkur sendiráð voru í hverfinu. Íraska sendiráðið var neðar í götunni og ég taldi hugsanlegt að FBI hefði eftirlitsstöðvar í grenndinni. Gat verið að Felt hefði falið gagnnjósnurum að fylgjast með hræringum blómapottsins? Það virðist afar ólíklegt, ef ekki útilokað.
Felt sagði að ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að þrýsta á hann. Hann hefði sjálfur kynnst því hversu erfitt gæti verið að afla upplýsinga. FBI þyrfti að reiða sig á samvinnuvilja fólks, líkt og blaðamannastéttin. Flestir væru reiðubúnir að veita alríkislögreglunni aðstoð, en það væri ekki einhlítt. Hugsanlega sýndi Felt mér umburðarlyndi vegna þess að hann hefði sjálfur verið svona ýtinn á yngri árum, meðal annars tekist að fá viðtal hjá Hoover og sagt honum frá metnaði sínum til að ná langt innan stofnunarinnar.
Þetta voru óvenjuleg skilaboð, en með þessum orðum hafði hann beinlínis gefið mér leyfi til að þjarma að sér eins og ég vildi.
Þegar um var að ræða frétt sem var jafn eldfim, flókin og eftirsótt og Watergate gafst lítið tóm til að velta fyrir sér hvaða hvatir lægju að baki uppljóstrunum heimildarmanna okkar. Það sem skipti máli var hvort upplýsingarnar reyndust réttar og hvort unnt var að staðfesta þær.
Ég var þakklátur fyrir allar þær upplýsingar, staðfestingar og aðstoð sem Felt veitti mér þegar við Carl vorum að reyna að átta okkur á því marghöfða skrímsli sem Watergate var. Staða hans sem raunverulegur yfirmaður alríkislögreglunnar ljáðu orðum hans og leiðsögn vigt og trúverðugleika. Það skipti mig meira máli en ásetningur hans, ef einhver var.
Það var ekki fyrr en síðar, eftir að Nixon hafði sagt af sér, sem ég fór að velta því fyrir mér hvers vegna Felt hefði ákveðið að leysa frá skjóðunni, þó það hefði getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir hann og alríkislögregluna. Ef nafn hans hefði komið fram á þessu stigi málsins hefði hann sjálfsagt ekki verið álitinn hetja. Tæknilega séð var ólöglegt að segja frá því sem kom fram í skjölum alríkislögreglunnar, í öllu falli hefði verið hægt að láta það líta þannig út.
Felt trúði því að hann væri að vernda stofnunina með því að finna leið til að koma á framfæri upplýsingum sem skapa myndu þrýsting á að Nixon og aðstoðarmenn hans yrðu látnir svara til saka. Hann hafði hreina óbeit á liðinu í Hvíta húsinu og tilraunum þess til að misnota alríkislögregluna í þágu pólitískra hagsmuna. Hann fyrirleit unga og æsta varðhunda forsetans, á borð við John W. Dean III.
Virðing hans fyrir Hoover og öguðum starfsháttum gerði honum enn erfiðara að sætta sig við skipun Grays. Felt taldi sig augljóslega vera rökréttan arftaka Hoovers.
Og þessi gamli njósnaveiðari úr síðari heimsstyrjöldinni hafði gaman af leiknum. Mig grunar að ég hafi verið leynilegur erindreki í hans huga. Hann brýndi fyrir mér að halda öllu leyndu hvað sem það kostaði, að missa aldrei neitt út úr mér, að minnast aldrei á hann sjálfan eða gefa í skyn við nokkurn mann að leynilegur heimildamaður kæmi að málinu.
Í hvert sinn sem ég spurði Felt sjálfan gaf hann mér sama svarið: "Ég verð að gera þetta á minn hátt."
Bob Woodward átti snaran þátt í að afhjúpa Watergate-hneykslið ásamt blaðamanninum Carl Bernstein. Þeir voru báðir blaðamenn á dagblaðinu Washington Post og skrifuðu bókina All The President's Men um málið. Woodward vinnur enn á Washington Post og hefur skrifað fjölda bóka um bandarísk stjórnmál. Sennilega hefur enginn blaðamaður jafn greiðan aðgang að valdhöfum í Washington.