Sjö uppreisnarmenn talibana féllu og tíu særðust þegar til átaka kom á milli nokkur hundruð bandarískra og afganskra hersveita við um 90 uppreisnarmenn úr röðu talibana á milli borganna Kandahar og Uruzgan í gær. Átökin brutust út þegar uppreisnarmenn réðust á hermenn sem voru í eftirlitsferð á svæðinu.
Fjórir hermenn úr röðum Afgana særðust í átökunum. Þeim lauk með því að uppreisnarmenn talibana flúðu upp í nálæg fjöll og tóku þeir hina særðu með sér. Tveir uppreisnarmenn voru teknir höndum. Bandarískir hermenn veittu talibönunum eftirför. Að sögn talsmanns bandaríska hersins í landinu stóð eftirförin enn yfir í morgun.