Franskra fórnarlamba hamfaranna í Asíu minnst í París

Aðstandendur fórnarlamba hamfaranna á Taílandi á 2. degi jóla í …
Aðstandendur fórnarlamba hamfaranna á Taílandi á 2. degi jóla í fyrra komu saman í París í dag og minntust látinna ættingja sinna. AP

Um 200 aðstandendur þeirra 95 frönsku fórnarlamba sem létust í hamförunum við Indlandshaf komu saman á Trocadero torginu í París í dag og minntust látinna ættingja. Í dag er hálft ár liðið frá því flóðbylgja skall á ströndum 11 landa við Asíu með þeim afleiðingum að 178.000 manns lét lífið. Enn er 25 franskra ríkisborgara enn saknað, þar af eru 16 börn.

Aðstandendur báru sérstakar orkídeur í barmi sínum, sem vaxa í Taílandi. Voru blómin sérstaklega flutt til Frakklands frá Taílandi í tilefni minningarathafnarinnar.

Philippe Douste-Blazy, utanríkisráðherra Frakklands, sagði við athöfnina að hann hefði beðið stjórnvöld í Taílandi um að hefja að nýju leit að þeim frönsku ríkisborgurum sem enn sé saknað. Ættingjar þeirra sem enn er saknað lýstu söknuði sínum fyrir nærstöddum. Þar á meðal var fjórtán ára drengur sem missti báða foreldra sína þegar flóðaldan reið yfir. Hann hafði verið að undirbúa sig fyrir köfun í sjónum við ferðamannastaðinn Ko Phi Phi ásamt föður sínum.

Fram kom við minningarathöfnina að fjölmargar fjölskyldur hefðu þurft á aðstoð að halda vegna andláts náinna ættingja og væru margir óvinnufærir vegna andlegra erfiðleika í kjölfar þessa. Gagnrýndu margir frönsk stjórnvöld fyrir að hlaupa ekki undir bagga við greiðslu sálfræðihjálpar til að vinna bug á erfiðleikunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert