Dennis Rader, sem gengur undir viðurnefninu BTK-fjöldamorðinginn, játaði á sig tíu morð, sem framin voru á árunum 1974 til 1991, fyrir dómara í Wichita í Kansas í Bandaríkjunum í gær. Rader afsalaði sér rétti sínum til réttarhalda og lýsti því nákvæmlega fyrir dómaranum hvernig hann valdi fórnarlömb sín og drap þau hvert af öðru. Hann var að því búnu fundinn sekur um öll morðin og verður refsing hans ákveðin í ágúst. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Hinn sextugi Rader sagði að löng og flókin réttarhöld myndu einungis leiða til þess að hann yrði sakfelldur og því hefði hann ákveðið að játa glæpi sína og afsala sér rétti sínum til réttarhalda. Hann útskýrði síðan nákvæmlega fyrir dómaranum hvernig hann valdi fórnarlömb sín og myrti þau síðan eftir langan aðdraganda. Þá lýsti hann því hvernig hann myrti hjón og tvö börn þeirra eftir að þau sáu andlit hans og hvernig hann lét eitt fórnarlambið loka börn sín inni á baði áður en hann myrti það.
Rader sagði einnig við réttarhöldin að hann hefði myrt fólkið til að fullnægja kynferðislegum hvötum sínum. Hann var handtekinn fyrir tilviljun og játaði í framhaldi af því að vera BTK-morðinginn.
BTK-morðinginn tók upp viðurnefnið BTK í bréfum sem hann sendi fjölmiðlum og yfirvöldum en með því vísaði hann í einkunnarorð sín "bind, torture and kill" (binda, pynta og drepa).