Mikið tjón af völdum flóða í Rúmeníu

Ungir drengir sitja og fylgjast með hundi svamla í vatni …
Ungir drengir sitja og fylgjast með hundi svamla í vatni á götu í bænum Alexandríu, um 100 kílómetra suðaustur af Búkarest, höfuðborg Rúmeníu. AP

Miklar rigningar í Rúmeníu síðustu daga urðu þess valdandi að ár flæddu yfir bakka sína á mörgun stöðum í landinu í morgun. Fjöldi húsa og mikið flæmi gróðurlendis skemmdist í flóðunum. Að minnsta kosti einn lést en fjögurra er saknað í austurhluta landsins.

Herlið og lögregla landsins var kölluð til aðstoðar hundruð manna sem lentu í vandræðum í flóðunum. Þar á meðal var hópur 19 barna sem lokast hafði inni á tjaldstæði. Var hvert og eitt þeirra flutt á brott með þyrlu.

Þá hreif flóð í suðurhluta landsins með sér ökutæki hersins sem notað var í björgunaraðgerðum í bænum Motoci. Þurfti að kalla til bát á vegum hersins til bjargar bæði hermönnum og farþegum sem þegar voru komnir í ökutækið.

Fjölda vega, þar á meðal þjóðvegi landsins, var lokað eftir að stór hluti vegakerfisins hvarf undir vatn. Þá voru mörg heimili án vatns og rafmagns í landinu.

Ríkisstjórnin hefur sent neyðaraðstoð til margra svæða.

Rignt hefur stanslaust á mörgum stöðum í Rúmeníu í tíu daga samfleytt. Veðurfræðingar segja úrkomuna ekki hafa verið meiri í landinu síðastliðin 50 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert