BTK-morðinginn dæmdur í ævilangt fangelsi

Rader í réttarsalnum í dag.
Rader í réttarsalnum í dag. AP

Dennis Rader, sem gengur undir viðurnefninu BTK-fjöldamorðinginn, var dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir dómstóli í Kansas í Bandaríkjunum í dag. Rader, sem er 60 ára gamall, myrti 10 manns með hrottafengnum hætti í Kansas á árunum 1974 til 1991.

Beverly Plapp, systir Nancy Fox sem Rader myrti á níunda áratugnum, sagðist vonast til þess að Rader fái að þjást fyrir gjörðir sínar. „Mín skoðun er sú að Dennis Rader eigi ekki skilið að lifa. Ég vil að hann þjáist eins mikið og hann lét fórnarlömb sín gera,“ sagði Plapp.

Rader virtist fullur eftirsjár í hálftíma langri ræðu sem hann hélt í réttarsalnum í dag. „Ég veit að fjölskyldur fórnarlambanna munu aldrei geta fyrirgefið mér. Ég vona þó einhvers staðar innst inni, að það muni einhvern tímann gerast,“ sagði Rader.

BKT stendur fyrir „Bind, torture, kill“ eða „binda, pynta, drepa.“ Rader kenndi sig sjálfur við þessa skammstöfun í ljósi þess hvað hann gerði við fórnarlömb sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert