Vopnahlé í fánastríði á Hans-eyju

Hans-eyja er aðeins 1,3 ferkílómetrar að stærð og þakin ís …
Hans-eyja er aðeins 1,3 ferkílómetrar að stærð og þakin ís mest allt árið.

Stjórnvöld í Danmörku og Kanada hafa orðið ásátt um að þau séu áfram ósammála um hvoru ríkinu Hans-eyja milli Grænlands og Ellesmere Island tilheyrir. Hins vegar hefur verið samið vopnahlé í svokölluðu fánastríði á eyjunni, en ríkin tvö hafa á undanförnum árum skipst á um að draga fána sína þar að húni.

Þeir Per Stig Møller, utanríkisráðherra Danmerkur, og Pierre Pettigrew, utanríkisráðherra Kanada, ræddu málin í New York í gærkvöldi en þeir eru báðir staddir þar vegna allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

„Við viðurkennum, að við höfum mjög mismunandi afstöðu til yfirráða yfir Hans-eyju," sögðu utanríkisráðherrarnir tveir eftir fundinn.

Að sögn danska ríkisútvarpsins, DR, náðist þó sá árangur á fundinum, að utanríkisráðherrarnir tveir ákváðu að láta af fánastríði á eyjunni. Ríkin tvö hafa á undanförnum árum reist fána sína á þessari eyðieyju, sem er 1,3 ferkílómetrar að stærð og umlukin ís mestallt árið.

DR hefur eftir Stig Møller, að Kanada og Danmörk geti ekki beitt sér fyrir því að alþjóðadeilur séu leystar með friðsamlegum hætti ef ríkin nái ekki samkomulagi um þessa eyju. Þess vegna hafi ráðherrarnir orðið sammála um að hefja viðræður um Hans-eyju og að fánastríð hefjist ekki á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert