Einn lést af völdum fellibyls á Taívan

Musterið sem hrundi í fellibylnum á Taívan í nótt
Musterið sem hrundi í fellibylnum á Taívan í nótt AP

Einn maður lést, konu er saknað, 46 er slasaðir og hálf milljón heimila eru án rafmagns eftir að fellibylurinn Longwang fór yfir Taívan í gær. Borgin Hualien varð verst úti í veðurofsanum en rúður brotnuðu í mörgum húsum. Þá hrundi ævafornt musteri til grunna í borginni. Sjónvarpsstöðin TVBS Cable News sýndi myndir af bílum sem höfðu hrúgast saman í fellibylnum.

Maðurinn sem lést var 60 ára. Andaðist hann á sjúkrahúsi eftir að björgunarmenn náðu honum úr húsi hans sem fallið hafði saman af völdum fellibylsins. Konan sem saknað er lenti í á í bænum Taichung og hefur hennar verið leitað.

Þá var öllu innanlandsflugi aflýst vegna veðurs. Segja embættismenn á Taívan, að flugvél Chen Shui-bian, forseta Taívans, hafi verið snúið til Balí í Indónesíu en þar höfðu hryðjuverkamenn sprengt fjórar sprengjur með þeim afleiðingum að 25 létust skömmu áður. Forsetinn var á 12 daga ferðalagi í Mið-Ameríku og átti hann að enda ferð sína í Taipei í dag.

Longwang, sem þýðir Drekakonungur, fór yfir á 227 kílómetra hraða á klukkustund og telst hann til 3. stigs fellibyls samkvæmt Saffír-Simpson kvarðanum um stærð fellibylja. Styrkur hans fer þverrandi eftir því sem hann fer lengra inn í land og má búast við nokkru úrhelli í mið- og norðurhlutum landsins í dag, að því er veðurstofan á Taívan greinir frá.

Bílar fuku til í fellibylnum Drekakonungi.
Bílar fuku til í fellibylnum Drekakonungi. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert