Alþjóðleg neyðarhjálp að berast til afskekktra þorpa í Pakistan og Indlandi

Hermaður frá Pakistan flytur slasaðan dreng um borð í bandaríska …
Hermaður frá Pakistan flytur slasaðan dreng um borð í bandaríska herþyrlu í dag. AP

Neyðaraðstoð er tekin að berast til þeirra afskekktu svæða sem urðu illa úti í jarðskjálftanum í Pakistan og Indlandi á laugardag. Þótt fjórir dagar séu liðnir síðan jarðskjálftinn reið yfir hefur hjálp enn ekki borist til afskekktustu þorpa í löndunum. Jack Straw, utanríkisráðherra Bretlands, segir neyðarhjálp Breta verða „mjög mikla“.

Hilary Benn, yfirmaður hjálparstarfsins, sagði í samtali við bresku fréttastofuna Sky, að í Bretlandi hafi safnast yfir ein milljón punda, yfir 100 milljónir íslenskra króna, til hjálparstarfsins. Hafi alþjóðlegar hjálparstofnanir sent neyðaraðstoð og áfallahjálp til 40.000 manna til næstu þriggja mánaða.

Að sögn Sky eru vegasamgöngur í norðanverðu Pakistan, í Indlandi og Kasmír, víða slæmar og sé erfitt að komast til margra þorpa. Hafi nokkrir reiðir íbúar þorpanna tekið málin í sínar hendur og farið á bílum til annarra þorpa í leit eftir neyðarbirgðum.

Þá mun neyðarbirgðum verða kastað niður úr flugvélum til þeirra þorpa sem erfitt hefur verið að komast að í löndunum. Á meðal birgðanna eru líkklæði svo múslimar geti jarðað þá sem létust í náttúruhamförunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert