Danskur þingmaður sem fæddist í Pakistan sagðist í dag ætla að bjóða upp klæðskerasniðnu jakkafötin sín til að afla fjár til stuðnings fórnarlömbum jarðskjálftans í Suður-Asíu á laugardaginn.
Kamal Qureshi heitir hann og situr á þingi fyrir Sósíalíska þjóðarflokkinn. Hann segir jakkafötin hafa kostað sem svarar um 300.000 íslenskum krónum en vonast til að fá mun meira fyrir þau á uppboðinu, sem haldið verður í sjónvarpssal.
Qureshi fæddist í Rawalapindi, skammt frá höfuðborg Pakistans, Islamabad, sem var illa úti í jarðskjálftanum. Fjölskylda hans fluttist þangað frá Norður-Indlandi.
Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita sem svarar um eitt hundrað milljónum íslenskra króna til hjálparstarfsins.