Pakistönsk yfirvöld urðu í dag að aflýsa fyrirhuguðu flugi þyrlna á skjálftasvæði í landinu vegna úrhellisrigninga, að því er embættismaður sem staddur var í Chaklala flugstöðinni sem er í námunda við Íslamabad, höfuðborg landsins, sagði. „Öllu þyrluflugi frá Chaklala hefur verið hætt,“ sagði embættismaðurinn í samtali við AFP-fréttastofuna.
„Tugir þyrlna með hjálpargögn eru til reiðu en þær hafa ekki komist frá flugstöðinni undanfarna klukkustund. Þær geta ekki farið í loftið fyrr en létt hefur til hérna, í norðri og í Kasmír,“ bætti hann við.
Sarfraz Khan, talsmaður pakistanska flughersins, sagði að þyrlur væru einnig veðurtepptar á svæðum í norðurhluta landsins, sem urðu illa úti af völdum skjálftans um helgina.
Meðal þyrlna sem ekki komast leiðar sinnar vegna úrhellisins eru bandarískar Chinook þyrlur sem flutt hafa hjálpargögn á skjálftasvæði og slasað fólk til höfuðborgar pakistanska hluta Kasmír héraðs, að sögn blaðamanns AFP.
Þyrlurnar hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að koma hjálp til afskekktra svæða í Pakistan sem einangruðust í skjálftunum vegna þess að vegir eyðilögðust.