Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur sagt að breska ríkisstjórnin muni leggja til aukalega 10 milljón punda, sem jafngildir um einum milljarði kr., til aðstoðar við eftirlifendur á jarðskjálftasvæðinu í Pakistan. Með þessu munu Bretar leggja alls til 12 milljónir punda til aðstoðar á hamfarasvæðinu, en þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Fyrr í dag lenti flugvél á vegum bresku ríkisstjórnarinnar sem var full af hjálpargögnum í Islamabad höfuðborg Pakistans. Meðal hjálpargagna eru 19.000 teppi og 800 tjöld sem hjálparstofnanirnar Oxfam og Islamic Aid munu nota í sínu starfi. Að sögn Aziz Rajab-Ali starfsmanns Islamic Aid er aðstoðin afar mikilvæg eftirlifendum skjálftans.