Bandaríska leyniþjónustan CIA heldur meintum hryðjuverkamönnum í leynilegum fangelsum í austurhluta Evrópu og víðar. Aðeins nokkrir embættismenn vita hvar þessir fangar eru geymdir. Þetta fullyrðir bandaríska dagblaðið Washington Post í dag. Fram hefur komið, að flugvélar, sem talið er að CIA hafi notað til að flytja fanga, hafa farið frá Reykjavíkurflugvelli til Búdapest í Ungverjalandi, nú síðast í október.
Blaðið hefur eftir bandarískum embættismönnum og embættismönnum frá öðrum löndun, að CIA hafi notað umrædd fangelsi, sem nefnd eru „svartir staðir", á undanförnum fjórum árum í átta löndum, þar á meðal Taílandi, Afganistan og nokkrum löndum í austurhluta Evrópu. Um sé að ræða lykilatriði í baráttu CIA gegn hryðjuverkum sem byggist á samvinnu að erlendar leyniþjónustur og því að halda áætluninni leyndu fyrir embættismönnum og þingmönnum.
Blaðið segist ekki birta nöfn Austur-Evrópuríkjanna að kröfu háttsettra bandarískra embættismanna, sem sögðu að það gæti grafið undan aðgerðum þessara landa gegn hryðjuverkastarfsemi.
Í yfirliti, sem birt var í danska þinginu í síðustu viku um ferðir meintra fangaflugvéla í danskri flughelgi, kom m.a. fram að flugvélarnar fóru m.a. til Slóvakíu, Úkraínu, Rússlands, Póllands og Tékklands og Ungverjalands.
Blaðið segir að CIA hafi sent yfir 100 fanga til þessara fangelsa. Er um að ræða menn sem taldir eru tengjast al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum. Um 30 þessara fanga, sem taldir eru forvígismenn hryðjuverkastarfsemi, hafa verið í haldi á svörtum stöðum á vegum CIA í Austur-Evrópu og víðar. Tveimur slíkum stöðum, á Taílandi og við Guantanamoflóa á Kúbu, var lokað árið 2003 og 2004.
Yfir 70 aðrir fangar sem upphaflega voru í haldi á svörtum stöðum en eru ekki taldir búa yfir jafn þýðingarmiklum upplýsingum eða hafi minni tengsl við hryðjuverkastarfsemi, hafa verið sendir til leyniþjónustustofnana í Egyptalandi, Jórdaníu, Marokkó, Afganistan og öðrum löndum.
CIA og Hvíta húsið hafa, að sögn Washington Post komið því á framfæri við bandaríska þingmenn að betra væri að þeir spyrðu ekki spurninga um þessi fangelsi og aðstæðurnar þar þegar þeir yfirheyra embættismenn á reglubundnum opnum nefndarfundum.
„Það er nánast ekkert vitað um hverjum er haldið á þessum stöðum, hvaða yfirheyrsluaðferðum er beitt og hvernig ákvarðanir eru teknar um hvað lengi þessir fangar eiga að vera í haldi," segir Washington Post. Blaðið segir, að aðeins nokkrir bandarískir embættismenn auk forseta og nokkurra háttsettra embættismanna viðkomandi landa vita hvar þessi fangelsi eru.
Washington Post segir, að það samrýmist ekki bandarískum lögum að halda föngum í einangrun í leynilegum fangelsum innan Bandaríkjanna og því flytji CIA fangana til útlanda. Blaðið vitnar í sérfræðinga í lögum og embættismenn innan leyniþjónustunnar um að þessar aðferðir CIA samræmist heldur ekki lögum nokkurra af þeim löndum þar sem fangelsin eru. Þau hafi skrifað undir sáttmála Sameinuðu þjóðanna um meðferð á föngum, eins og Bandaríkin hafa gert. Samt fái starfsmenn CIA að beita þar aðferðum við yfirheyrslur sem sáttmáli SÞ og bandarísk herlög banni. Segir blaðið, að talsvert sé deilt um þessar aðferðir innan leyniþjónustunnar.