Þúsundir við útför Rosu Parks

Kista Rosu Parks borin burt að lokinni útför hennar í …
Kista Rosu Parks borin burt að lokinni útför hennar í gær. Reuters

Um 4.000 manns voru við útför Rosu Parks í Detroit í Bandaríkjunum í gær. Rosa neitaði árið 1955, þá 42ja ára gömul, að standa upp fyrir hvítum manni í strætisvagni í bænum Montgomery í Alabama í Bandaríkjunum en þá giltu ströng lög um aðskilnað hvítra og svartra í strætisvögnum. Var Rosa fangelsuð fyrir að sitja kyrr og hratt af stað með því mótmælaöldu meðal svartra Bandaríkjamanna sem endaði með því að alríkislög voru sett í landinu sem bönnuðu misrétti á opinberum stöðum.

Útförin stóð yfir í fjórar klukkustundir og var mikið um ræðuhöld. Sagði öldungadeildarþingmaðurinn Barck Obama að Rosa skipaði lykilhlutverk í sögu Bandaríkjanna og að nafn hennar „myndi geymast í minni fólksins löngu eftir að nöfn þingmanna og forseta væru gleymd.“

Gengu ættingjar Rosu framhjá opinni kistu hennar og á meðan héldust kirkjugestir í hendur og sungu mannréttindasönginn „We Shall Overcome“, eða „Við munum sigra.“ Parks var lýst bæði sem baráttukonu og friðarsinna sem hefði alla sína ævi unnið ötullega að réttindum svartra og jafnrétti milli kynþátta.

Fyrrum forseti Bandaríkjanna, Bill Clinton, hélt minningarræðu um Parks og sagði að hún hefði vakið athygli heimsins fyrir „einn, einfaldan gjörning sem einkenndist af hugrekki og reisn sem hefði verið banabiti fordómafullrar löggjafar.“ Clinton veitti Parks Frelsisorðu Bandaríkjaforseta þegar hann gegndi því embætti.

Aretha Franklin og Brenda Jackson sungu bænina Faðir vor og mannréttindafrömuðurinn Jesse Jackson hélt ræðu og hvatti bandarísk stjórnvöld til þess að halda ráðstefnu um mannréttindi.

Óralöng biðröð myndaðist við kirkjuna sem náði margar húsalengjur en 2.000 kirkjusæti stóðu almenningi til boða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert