Þúsundir manna sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum í Pakistan í síðasta mánuði eiga á hættu að deyja úr sjúkdómum við slæmar aðstæður í tjaldbúðum, að því er bresku hjálparsamtökin Oxfam sögðu í dag. Tugþúsundir manna hafi leitað skjóls í tjaldbúðum sem margar hverjar séu á flóðasvæðum og hreinlætisaðstaða í þeim sé oft ófullnægjandi.
Oxfam segja að neyð fólks sem ekki komist frá afskekktum þorpum hafi skyggt á áþján fólksins sem búi í tjaldbúðunum. Íbúum þorpanna sé alvarleg hætta búin, einkum þegar byrji að snjóa, eins og nú hefur verið spáð, en fjölmiðlar hafi ekki veitt tjaldbúðafólkinu jafn mikla athygli.
Jarðskjálftinn sem varð áttunda október varð um 80.000 manns að bana, og yfir þrjár milljónir misstu heimili sín.