Prinsessan varð óbreytt húsfrú

Sayako Japansprinsessa, einkadóttir keisarans, hefur stigið niður af hinum guðlega tróni og er nú hvorki konungleg né keisaraleg. Það gerðist í gær þegar hún gekk að eiga óbreyttan alþýðumann en að vísu í góðum álnum.

Sayako, sem er 36 ára, giftist Yoshiki Kuroda, fertugum skipulagsfræðingi, og voru þau vígð frammi fyrir shinto-altari á einu glæsilegasta hóteli Tókýóborgar. Voru þau bæði klædd upp á vestræna vísu og skáluðu í sake-víni að vígslu lokinni.

Sayako játaði í gær fyrir blaðamönnum, að hún vissi í raun ekki margt um líf venjulegs millistéttarfólks og ætti því margt ólært.

Þótt hjónavígslan sjálf hafi verið fremur einföld, var veislan á eftir mjög glæsileg og hafði enginn orð á, að prinsessan hefði tekið niður fyrir sig. Sóttu hana keisarahjónin, foreldrar brúðarinnar, þau Akihito og Michiko, og veislustjóri var Shintaro Ishihara, ríkisstjóri í Tókýó, yfirmaður og vinnuveitandi brúðgumans.

Rætt um að breyta lögum um ríkiserfðir

Masako, mágkona Sayako, var meðal gesta en hún er slæm á taugum og hefur haft sig lítt í frammi undanfarin tvö ár. Má rekja það til þeirra væntinga landa hennar, að hún eignist son og þar með erfingja að krúnunni en líklega er orðið útséð um það. Hennar eina barn er Aiko, þriggja ára stúlka, en gildandi lög banna henni að setjast í hásæti tryggðablómsins eins og það er kallað. Í japönsku keisarafjölskyldunni hefur enginn drengur litið dagsins ljós frá 1965 og því er nú komin af stað umræða um að breyta erfðalögunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert