Náðst hefur þverpólitísk samstaða meðal hollenskra stjórnmálaflokka um að setja á stofn tilraunir með að lögleiða maríjúanaræktun og hótar hópurinn sem stendur á bakvið frumvarpið að fara í hart ef ríkisstjórnin reyni að fella það í þinginu.
Dómsmálaráðherra Hollands, Piet Hein Donner er mótfallinn því að ræktun marijuana því það myndi færa Holland enn fjær löggjöfinni í nágrannalöndunum. „Þetta frumvarp stríðir bæði gegn hollenskum og alþjóðalögum,” sagði talsmaður hans Wibbe Alkema.
Samkvæmt hollenskum lögum eru bæði marijúana og hass ólögleg efni en lögreglan sektar ekki fólk fyrir að hafa 5 gr eða minna og lögsækja fólk ekki sem er með 30 gr eða minna. Yfirvöld hafa einnig séð í gegnum fingur sér með opna sölu á kannabis í svokölluðum „Coffee shops” sem selja hass í ýmsu formi.
Ræktendur eru aftur á móti alveg ólöglegir og verða oft fyrir óvæntum heimsóknum lögreglunnar og þar er komin upp ákveðinn tvískinnungur í málinu því seljendur og kaffihúsaeigendur geta ekki nálgast þennan söluvarning með lögmætum hætti. Ræktendur eru oft með sína starfsemi í felum, bókstaflega neðanjarðar og í heimahúsum og bílskúrum. Þeir sem gagnrýna núverandi ástand segja að stuldur á rafmagni fyrir ræktunarlampana leiði oft til slysa og eldsvoða og færi glæpastaarfsemi inn í íbúðarhverfin.
Tilraunaverkefnið yrði sett á laggirnar nærri Maastricht þar sem öllum reglum um gróðurhúsaræktun yrði framfylgt. Kaffihúsin og sölustaðir yrðu að sjá neytendum fyrir innihaldslýsingu og upplýsingum um skaðsemi reykinga. Fylgjendur frumvarpsins segja að nú verði að taka næsta rökrétta skref og að ef vel gengur verði hægt að sýna fram á að þetta sé framför miðað við núverandi ástand.
Þeir sem eru á móti frumvarpinu hafa bent á að borgir og bæir nærri landamærunum þurfi að þola ýmis vandamál í tengslum við svokallaða „hassferðamenn”. Fylgjendur frumvarpsins segja það góðan hlut að geta rakið hassið frá ræktun til sölu. Það gæti líka opnað leiðina til algerrar lögleiðingar og skattlagningar á iðnaði sem áætlað er að velti um 6 milljörðum evra á ári.
En talsmaður dómsmálaráðuneytisins sagði að fyrir utan spurninguna um lögmæti frumvarpsins þá dró hún einnig í efa að það myndi leysa vandamálin sem tengjast kannabisneyslu. „Þvert á móti, við myndum fá yfir okkur enn fleiri útlenda dópkaupendur og hassferðamenn.”
Áætlað er að það náist þverpólitískur meirihluti þegar frumvarpið verður lagt fyrir í þinginu eins og gerðist þegar aðrar framsæknar tillögur á borð við lögleiðingu samkynhneigðar giftingar og lögleiðingu líknardauða hafa verið lagðar fyrir það. Næsta skref verður umræða um lögmæti eiturlyfja seinna í mánuðinum.