Réttarrannsókn vegna breskra fórnarlamba flóðbylgjunnar

Í dag hefst réttarrannsókn vegna þeirra 93 Breta sem létu lífið í flóðbylgjunni í Asíu í fyrra. Settur hefur verið upp sérstakur réttarsalur í Olympia Exhibition Centre í Vestur-London til að hýsa rannsóknina næstu fjóra daga.

Reiknað er með að ættingjar og vinir þeirra sem létust muni vera viðstaddir sem og þeir sérfræðingar og lögreglumenn sem málið varðar. Ættingjarnir vonast til að fá skýrari mynd af atburðunum og fá svör við ýmsum spurningum, sérstaklega hvað varaðar meðhöndlun málsins eftir sjálfan atburðinn.

Alls er vitað með vissu um 141 Breta á meðal þeirra 200 þúsund sem létust í flóðbylgjunni, þessi réttarrannsókn fjallar um þá látnu sem fundist hafa og hvers lík voru send til heimalandsins. Samkvæmt breskum lögum verður að halda réttarrannsókn þegar lík er sent heim eftir skyndilegan eða óeðlilegan dauða að mati réttarlæknis.

BBC fréttavefurinn skýrði frá því að ættingjar Lord Attenborough’s væru á meðal hinna látnu, barnabarn hans Lucy Holland, dóttir hans Jane Holland og tengdamóðir hennar Audrey Holland létust allar í flóðbylgjunni.

Enn vinnur breska lögreglan að því að bera formlega kennsl á sex líkanna en talið er að vitað sé með nokkurri vissu hverjir þeir aðilar eru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert