Sjö manns fórust þegar tjald brann á jarðskjálftasvæðunum í Pakistan

Drengir í skólatjaldi í Chham í Kasmírhéraði.
Drengir í skólatjaldi í Chham í Kasmírhéraði. AP

Sjö manns, þar af fjögur ung börn, létu lífið þegar tjald brann í tjaldbúðum á jarðskjálftasvæðinu í Pakistan. 10 ára stúlka liggur á sjúkrahúsi með alvarleg brunasár. Talið er að eldurinn hafi kviknað út frá kerti.

Að sögn lögreglu á svæðinu voru fjórir látnir þegar að var komið en þrír aðrir létust á sjúkrahúsi í morgun. Meðal þeirra sem létust voru fjögur systkini, tvær stúlkur og tveir drengir á aldrinum 3-8 ára. Móðir þeirra lét einnig lífið auk hjóna á sjötugsaldri.

Fjölskyldur tveggja bræðra höfðust við í tjaldinu sem brann en það hafði verið reist við rústir húss fjölskyldnanna í þorpinu Bansir í norðvesturhluta Pakistans.

Lögreglan segir að ekkert rafmagn hafi verið á svæðinu í gærkvöldi og því hafi verið kveikt á kertum í tjaldinu. Fjölskyldan sofnaði út frá kertaljósi sem kveikti í sængurfötum.

Um 3,5 milljónir manna misstu heimili sín í jarðskjálftanum sem kostaði um 87 þúsund manns lífið. Hjálparsamtök hafa varað við miklum hörmungum á svæðinu nú þegar vetur er genginn í garð. Er bæði óttast að tugir þúsunda láti lífið úr kulda en einnig er óttast að fleiri mannskæðir eldsvoðar verði í tjöldum vegna þess að fólk kveikir eld á kertum og hitunartækjum til að halda sér hita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert