Colin Powell segir Evrópuleiðtoga þykjast vera hneykslaða

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir leiðtoga Evrópuríkja þykjast vera …
Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir leiðtoga Evrópuríkja þykjast vera hneykslaða vegna frétta af leynifangelsum Bandaríkjamanna í Evrópu. Reuters

Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur gefið í skyn að leiðtogar Evrópuríkja þykist vera hneykslaðir af fréttum af því að Bandaríkjamenn hafi flutt meinta hryðjuverkamenn í leynileg fangelsi í Evrópu þar sem þeir voru síðan yfirheyrðir. Powell líkti ástandinu, í viðtali við breska ríkisútvarpið (BBC), við atriði í kvikmyndinni Casablanca þar sem lögregluforingi þykist vera hneykslaður.

Evrópuþingið hefur tilkynnt að nefnd verði sett á laggirnar sem muni rannsaka fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar (CIA) í Evrópu.

Þingið sendi frá sér ályktun þar lýst er yfir miklum áhyggjum vegna meintrar hlutdeildar CIA í ólöglegum mannránum, flutningi, leynilegu varðhaldi og pyntingum á meintum hryðjuverkamönnum.

Frásagnir herma að CIA starfræki leynifangelsi í Rúmeníu og Póllandi, og að leyniþjónustan fljúgi, með leynd, með fanga í gegnum flugvelli á Ítalíu, í Þýskalandi og Rúmeníu.

Fyrr í þessum mánuði sagði arftaki Powels, Condoleezza Rice, framsal leiddi til þess að Bandaríkin handtækju og héldu hryðjuverkamönnum í fangelsi. Hún sagði jafnframt að ríkisstjórnir Evrópuríkja hefðu unnið með Bandaríkjunum hvað þetta varðar.

Hún sagði hinsvegar að Bandaríkin stæðu ekki í því að flytja fanga til annarra landa til þess að yfirheyra og pynta þá.

Rice greindi frá þessu eftir að fréttir af leynilegum fangelsum varð til þess að Evrópuleiðtogar fóru að spyrja fjölda spurninga í tengslum við þetta, og skömmu fyrir Evrópuför hennar.

Powell sagði ekki að leynifangelsin væru notuð í ólöglegum tilgangi. Hann hélt því jafnframt fram að Evrópuleiðtogar gerðu sér fulla grein fyrir framsalsferlinu.

„Flestir vina okkar í Evrópu geta ekki verið hneykslaðir yfir því að svona hlutir eigi sér stað [...] Staðreyndin er að við höfum, undanfarin ár, haft ákveðnar starfsreglur í gangi sem eru til þess að eiga við fólk sem ber ábyrgð á hryðjuverkum, eða meintri hryðjuverkastarfsemi. Þannig að það sem kallast framsal er eitthvað sem er hvorki nýtt né óþekkt hjá vinum mínum í Evrópu,“ sagði Powell í sjónvarpsviðtali við BBC sem var birt í gær.

Fréttavefur CNN greinir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert