Kínverjar halda brátt upp á nýtt ár, ár hundsins, samkvæmt sínu tímatali og fylgja því jafnan mikil lestarferðalög. Fólk flykkist í búðir og kaupir mat og flugelda en auk þess bleiur fyrir fullorðna. Erfitt getur reynst að komast á klósettið í lestunum þar sem þær eru svo troðnar fólki að meira að segja klósettin eru fullsetin og því verður fólk að grípa til þess ráðs að nota bleiur.
Í iðnaðarborginni Foshan hefur bleiusala aukist um 50% frá því að helsti ferðatími vetrarins hófst þann 14. janúar, að því er dagblöð þar greina frá. Fleiri farmiðar eru seldir í lestirnar en sætarúm leyfir og verður fólk því að troða sér í hvern krók og kima. Það eitt að kaupa sér miða getur tekið margar klukkustundir.
Um tveir milljarðar manna ferðast með lestum í Kína á 40 daga tímabili um og í kringum áramótin sem í ár eru þann 29. janúar. Fjórar milljónir manna fara þá dag hvern með lestum til fundar við fjölskyldu og vini um landið.