Hamas með meirihluta þingsæta á palestínska þinginu

Stuðningsmenn Hamas-samtakanna fögnuðu gríðarlega þegar úrslit þingkosninganna voru ljós.
Stuðningsmenn Hamas-samtakanna fögnuðu gríðarlega þegar úrslit þingkosninganna voru ljós. AP

Hamas-samtökin unnu sigur í þingkosningunum í Palestínu sem fram fóru í gær. Samkvæmt bráðabirgðatölum fékk Hamas 76 þingsæti en Fatah-hreyfingin, sem situr í ríkisstjórn, 43 þingsæti. Hamas er því með meirihluta á þinginu sem telur 132 sæti. Kosningaþátttaka var 77%.

Ahmed Qurei, forsætisráðherra Palestínu, bauðst til þess að segja af sér í dag og Fatah-hreyfingin hefur greint frá því að hún muni ekki starfa með Hamas í ríkisstjórn.

Að sögn fréttaskýrenda stendur Hamas frammi fyrir því að þurfa hefja friðarviðræður við Ísrael, en það mun reynast þeim erfitt.

George W. Bush Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkin muni ekki eiga í samskiptum við Hamas nema að samtökin dragi þau ummæli tilbaka að þau vilji þurrka út Ísrael. „Ég hef sagt það að Bandaríkin styðji ekki stjórnmálaflokka sem vilja eyða Ísrael sem er bandamaður okkar,“ sagði Bush.

Hann sagði að kosningin hafi vakið forystu Palestínu af værum blundi, en hann vonaðist til þess að leiðtogi Palestínumanna, Mahmoud Abbas, yrði áfram við völd.

Fréttavefur BBC greindi frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka