Íranskt dagblað heldur skopmyndasamkeppni um helförina

Dagblaðið Hamshahri heldur skopmyndasamkeppni þar sem teiknurum er boðið að …
Dagblaðið Hamshahri heldur skopmyndasamkeppni þar sem teiknurum er boðið að grínast með helförina. Reuters

Hamshahri, mest selda dagblað Írans, hefur tilkynnt að það muni halda skopmyndasamkeppni um helförina sem svar við skopmyndunum af spámanninum Múhameð sem birtust í Jyllands-Posten.

„Þetta verður alþjóðleg samkeppni um helförina,” sagði Farid Mortazavi, yfirmaður hönnunardeildar blaðsins, sem er gefið út í Teheran. Hann sagði að meiningin væri að nota tjáningarfrelsi að hætti Vesturlanda.

Stjórn Írans styður svokallaða „endurskoðun helfararinnar” sem heldur því fram að helförin hafi verið upplogin eða stórlega ýkt til að afsaka tilvist Ísraelsríkis.

Á morgun mun blaðið bjóða skopteiknurum að taka þátt í keppninni, verðlaun eru í boði fyrir 12 bestu teikningarnar, sami fjöldi teikninga og Jyllands-Posten birti í september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert