Í Mahalla el-Kubra sem er 120 kílómetra norðan við Kairó særði egypska lögreglan þrjátíu manns er hún skaut gúmmíkúlum og táragasi á tólf þúsund manna hóp sem mótmælti skopteikningunum af spámanninum Múhameð í vestrænum fjölmiðlum.
Tuttugu voru handteknir þegar mótmælin urðu ofbeldisfull, mótmælin fóru fram eftir föstudagsbænirnar. Lögreglan hóf skothríðina þegar hópur mótmælenda fór að henda steinum.
AP fréttastofan sagði að meðal hinna særðu væru tveir þingmenn sem tilheyra Múslímska bræðralaginu sem er helsti stjórnarandstöðuflokkur Egyptalands.
„Við vorum búnir að ræða mótmælin við lögregluna en þeir réðust á okkur fyrst og ráku fólk aftur inn í moskuna og skutu táragasi á það,” sagði Mohammed Habib næstæðsti stjórnandi bræðralagsins.
„Margir misstu meðvitund eftir að hafa andað að sér táragasi,” sagði hann og jafnframt að einn maður hefði hlotið brunasár í andliti.
Fyrri mótmæli við Al-Azhar moskuna í Kairó fóru friðsamlega fram þó að margir danskir fánar hefðu verið brenndir.