Vilja að birting skopmyndanna verði bönnuð með lögum í Bretlandi

Íslamskir trúarleiðtogar í Bretlandi krefjast þess að lög verði sett sem banna að umdeildar skopmyndir af Múhameð spámanni verðir birtar í þarlendum fjölmiðlum. Þá vilja þeir auka vald fjölmiðlasiðanefndar í sama tilgangi. Skipulögð hefur verið fjöldaganga í London um helgina, og segja leiðtogarnir að þeir vænti þess að allt að 20.000 manns taki þátt í henni.

Frá þessu greinir fréttavefur The Guardian.

Um 300 trúarleiðtogar og fræðimenn frá Englandi og Skotlandi komu saman til fundar í fyrradag til að leggja áherslu á óánægju breskra múslíma og leggja á ráðin um frekari viðbrögð. Stofnuð var Aðgerðanefnd múslíma (MAC), og hyggjast leiðtogar hennar herða baráttuna gegn meintri lítilsvirðingu gagnvart samfélögum múslíma og hvetja til „kurteisi um heim allan“.

Þeir segjast staðráðnir í að sýna fram á hvað múslímum hafi verið sýnd mikil ónærgætni, en ætla ekki að leyfa öfgamönnum að stela senunni. Faiz Siddiqi, formaður nefndarinnar, segir að þörf sé á hugarfarsbreytingu:

„Í öllum siðuðum samfélögum er borin virðing fyrir því ef einhver biðst undan því að sæta móðgunum. Sagan sýnir að í Evrópu hefur ekki verið komið vel fram við minnihlutahópa. Helförin er dæmi um það. Myndirnar sem nú eru dregnar upp eru samskonar og þær sem Hitler notaði gegn gyðingum. Við sáum hvað það hafði í för með sér: Heimsstyrjöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert