Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, og Per Stig Møller, utanríkisráðherra, sátu í dag á löngum fundi með utanríkismálanefnd danska þingsins um afleiðingar skopmynda sem birtust upphaflega í dönsku blaði af Múhameð spámanni múslima. Rasmussen sagði eftir fundinn, að alls ekki væri tímabært að hefja rannsókn á því hvernig dönsk stjórnvöld hefðu haldið á málinu eins og stjórnarandstöðuflokkar þar í landi krefjast.
Danska stjórnarandastaðan segir, að upplýsingar, sem birtist í blaðinu Politiken í dag um að egypska ríkisstjórnin hafi fyrir þremur mánuðum m.a. haft samband við dönsk stjórnvöld vegna málsins, varað við afleiðingum skopmyndanna og jafnframt rétt út sáttahönd en danska ríkisstjórnin hafi hunsað þetta.
Bæði Fogh Rasmussen og Stig Møller sögðu að ekkert nýtt hefði komið fram í málinu. „Málið snýst um pólitík og stefnu. Þess vegna er þetta ekki mál, sem á að fjalla um í þingsalnum fyrir opnum tjöldum," sagði Rasmussen. Hann sagði mikilvægt að kröftunum verði beint að því að leysa málið í stað þess að verja tíma í að rannsaka hver hefði hvað og hvenær.