Talsmenn Neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna greindu frá því í morgun, að tekist hefði að koma í veg fyrir hamfarir vegna vetrarkulda í norðanverðu Pakistan í kjölfar jarðskjálftans þar þann 8. október síðastliðinn.
Jamie McGoldrick, talsmaður stofnunarinnar, sagði í morgun, að mestu vetrarkuldarnir í landinu væru nú um garð gengnir og tekist hefði að koma í veg fyrir hrinu dauðsfalla af völdum kulda og vosbúðar. Þá sagði hann heldur ekki hafa komið til fólksflótta úr fjallahéruðunum, enda hafi hvorki vannæring né farsóttir herjað á íbúa þeirra eins og óttast var.
„Við virðumst hafa unnið kapphlaupið við veturinn,” sagði hann, en um 80.000 manns létu lífið í jarðskjálftanum í október.