Pandabirnirnir í dýragarðinum í Hong Kong hafa fengið í hrammana leikfang, sem væntanlega má flokka sem þroskaleikfang. Um er að ræða plasthólk, sem inniheldur ýmislegt góðgæti, svo sem ávexti og kexkökur, og er með götum sem hægt er að ná matnum út um með lagni. Þessi fæðuhólkur var hannaður af háskólastúdentum í Hong Kong og er honum ætlað að þjálfa pöndurnar, bæði líkamlega og andlega svo þær geti haldið sér í góðu formi í prísundinni. Á myndinni sést björninn An An velta plasthólknum fyrir sér.