Einn lést og 22 slösuðust í jarðskjálfta í Pakistan í morgun. Talið er að jarðskjálftinn, sem mældist 5,2 stig á Richter-kvarða, sé eftirskjálfti eftir stóra jarðskjálftann sem reið yfir suðurhluta Asíu þann 8. október sl. og dró yfir 73 þúsund íbúa Pakistans til dauða.
Skjálftinn fannst víða í Pakistan, en upptök hans virðast hafa verið á milli Jhelum og Mirpur í Púnjab-héraði.
Einn maður lést af völdum höfuðáverka er hann hlaut þegar veggur hrundi yfir hann. Mikill ótti greip um sig í Púnjab-héraði og eru einhverjir þeirra sem slösuðust slasaðir eftir að hafa hent sér út um glugga á byggingum þar sem þeir voru staddir þegar skjálftinn reið yfir.
Talið er að yfir 1.750 eftirskjálftar hafi mælst eftir skjálftann þann 8. október. Sá skjálfti mældist 7,6 stig á Richter.