Nýi forsætisráðherra Palestínu, Ismail Haniyeh, gagnrýndi Bandaríkin í dag fyrir að takmarka diplómatísk samskipti við ríkisstjórn Hamas. Hann segir að það sé verið að refsa þjóð hans fyrir að hafa kosið Hamas í sl. þingkosningum.
Bandaríkin tilkynntu það á föstudag að bandarískum embættismönnum væri meinað að hafa samskipti við palestínska stjórnarerindreka sem heyra undir Hamas, en eyðing Ísraels er í stefnuskrá Hamas. Öll ráðuneyti í Palestínu eru nú undir stjórn Hamas.
Að sögn talsmanns utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, Adam Ereli, munu embættismenn halda áfram að hafa samskipti við Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna, og þingmenn Fatah, sem vilja friðarviðræður.
„Þessi ríkisstjórn var kjörin í frjálsum og heiðarlegum kosningum, og samkvæmt reglum lýðræðisins sem Bandaríkjastjórn hefur óskað eftir,“ sagði Haniyeh við hóp stuðningsmanna sinna sem heimsóttu ráðherrann á skrifstofu hans, en þeir voru komu til þess að óska ríkisstjórninni góðs gengis.
„Við teljum að það sé verið að refsa palestínsku þjóðina vegna lýðræðislegs vals þeirra, og á sama tíma veldur þetta þjóðinni meiri þjáningu,“ sagði hann.
Vestrænar þjóðir og Ísrael ætla sér að sniðganga ríkisstjórn Haniyeh, sem sór embættiseið í síðustu viku. Vesturveldin hóta að hætta allri aðstoð, sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir svæðið, nema Hamas snúi baki við ofbeldisfullri hugmyndafræði sinni. Þrátt fyrir að Hamas hafi að mestu framfylgt 14 mánaða gömlu vopnahléi þá hafa samtökin neitað að afvopnast og viðurkenna Ísrael.
Fyrstu dagar Hamas við völd hafa einkennst af blöndu alþjóðlegs þrýstings og ofbeldisverka í landinu. Fjórir létust og 36 særðust um helgina í óeirðum er tengjast morði á hátt settum uppreisnarmanni er tilheyrir Hamas. Ákall Haniyeh eftir ró og að menn hætti að bera vopn undir berum himni var hafnað af hátt settum Hamas manni á Gaza. Talið er að þetta geti leitt til átaka milli valdahópa innan Hamas, en alger lögleysa hefur ríkt á Gaza að undanförnu.