Bush sagður undirbúa víðtækar sprengjuárásir á Íran

George W. Bush.
George W. Bush. Reuters.

Bandaríski blaðamaðurinn Seymour Hersh segir í grein í tímaritinu The New Yorker, að Bandaríkjastjórn sé að undirbúa víðtæka árás á kjarnorkuver í Íran þar sem meðal annars komi til greina að beita litlum kjarnorkusprengjum, svonefndum byrgjabönum.

Í greininni segir Hersh, að George W. Bush, Bandaríkjaforseti, og aðrir í stjórn hans, telji að Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, gæti orðið leiðtogi í líkingu við Hitler.

Haft er efir ónafngreindum ráðgjafa í bandaríska varnarmálaráðuneytinu, að Hvíta húsið telji einu leiðina til að leysa vandamálin í Íran þá, að skipta þar um stjórnvöld og það þýði stríð.

Haft er eftir fyrrum leyniþjónustumönnum í greininni, að árásaráætlunin sé víðtæk. Einn fyrrum varnarmálafulltrúi segir að áætlunin byggist á þeirri tilgátu, að langvinn sprengjuárás á Íran muni auðmýkja núverandi klerkastjórn og almenningur muni á endanum gera uppreisn gegn henni.

Hersh segir, að Bush hafi á undanförnum vikum átt viðræður við nokkra lykilþingmenn, þar á meðal að minnsta kosti einn demókrata, um árásaráætlunina. Sagt er að til greina komi að nota svonefnda byrgjabana, litlar kjarnorkusprengjur, til að eyðileggja kjarnornuver í Natanz. Þar er talið að miðstöð úransauðgunar sé.

Hugmyndirnar um að beita kjarnavopnum hafa þó valdið uppnámi innan Bandaríkjahers og eru sumir embættismenn sagðir hóta að segja af sér vegna þess að þeim hefur ekki tekist að strika þau vopn út úr áætluninni.

Haft er eftir ráðgjafanum í greininni, að sprengjuárásir á Íran gætu valdið keðjuverkum og haft í för með sér árásir á bandaríska þegna og byggingar um allan heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert