Ítalskt tímarit, sem tengist kaþólska félaginu Opus Dei, hefur birt skopmynd af Múhameð spámanni, sem valdið hefur uppnámi meðal múslima á Ítalíu. Teikningin sýnir skáldin Dante Aligieri og Virgil við loga vítis og horfa á Múhameð í logunum en spámaðurinn hefur verið höggvinn í tvennt.
„Er þetta ekki Múhameð?" spyr Virgil í texta með myndinni í tímaritinu Studi Cattolicis. „Jú og hann hefur verið skorinn í tvennt vegna þess að hann hefur klofið samfélagið í tvennt," svarar Dante.
Opus Dei segist ekki bera ábyrgð á tímaritinu og segir að félagar í samtökunum hafi mál- og skoðanafrelsi.
Ítalska fréttastofan ANSA hefur eftir Cesare Cavalleri, ritstjóra tímaritsins, að hann voni að þessi teikning leiði ekki til árása múslima en gerist það sýni það fram á fáránleika íslamskra öfgaskoðana.
Hann vísar einnig til þess að í Guðdómlega gleðileiknum eftir Dante sé Múhameð sagður liggja með innyflin úti.