Telja sig hafa fundið lík sem dýraverndunarsinnar rændu

Breska rannsóknarlögreglan hefur staðfest að lík, sem fannst í Hednesford á Englandi, sé af Gladys Hammond, sem dýraverndunarsinnar rændu úr gröf í Staffordskíri í október 2004. Hammond var skyldmenni Hall fjölskyldunnar, sem ræktaði naggrísi fyrir rannsóknarstofur sem gera tilraunir á dýrum í þágu læknavísindanna.

Meinafræðingur innanríkisráðuneytisins segist viss um að þær jarðnesku leifar sem fundust væru af Hammond. Enn á þó eftir að gera DNA-rannsókn til að skera endanlega úr um að svo sé, en tannlæknaskýrslur benda til þess að líkið sé af Hammond.

Hall fjölskyldan lokaði ræktunarstöð sinni í janúar og skilaði ræktunarleyfi sínu aftur til innanríkisráðuneytisins. Fjórir menn, sem gengist hafa við því að kúga fé út úr fjölskyldunni, verða dæmdir til refsingar eftir viku í Nottinghamskíri. BBC sagði frá því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert