Verðandi móðir á sjötugsaldri sætir harðri gagnrýni

Baráttusamtök fyrir réttindum ófæddra barna hafa brugðist ókvæða við fréttum af því að 63 ára breskur barnasálfræðingur eigi von á barni, eftir að hafa gengist undir frjósemisaðgerð, og sagt það siðlaust dæmi um viðhorf neyslusamfélags sem líti á börn sem framleiðsluvöru. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Josephine Quintavalle, talsmaður samtakanna Core, segir afskaplega erfitt fyrir börn að eiga svo gamla foreldra og að ljóst sé að sjálfselska ráði gerðum hinna verðandi foreldra. „Það er þetta neyslusamfélag sem vill alla hluti og hættir aldrei að hugsa um börn sem vöru,” segir hún. „Stundum felst mesta ástin í því að segja nei.”

Barnasálfræðingurinn Patricia Rashbrook hefur staðfest að hún sé komin sjö mánuði á leið. Rashbrook er 63 ára gömul og mun verða elsta konan sem fætt hefur barn á Bretlandseyjum. Barnið verður þriðja barn hennar og eiginmanns hennar, John Farrant, en við getnaðinn nutu þau aðstoðar ítalska læknisins Severino Antinori.

Í yfirlýsingu hjónanna kemur fram, að ákvörðun þeirra um að eignast barn hafi ekki verið tekin án umhugsunar. „Við höfum lagt mikla vinnu í að skipuleggja velferð barnsins og sjá fyrir því, bæði í nútíð og framtíð, læknisfræðilega, félagslega og efnahagslega,” segir m.a. í yfirlýsingu þeirra.

Hjónin hafa ekki viljað gefa upp hvers konar læknismeðferð þau fengu á Ítalíu, en Antinori, sem sérhæfir sig í meðferð eldri kvenna, komst í heimsfréttirnar árið 1994 er 63 ára kona, sem hafði verið til meðferðar hjá honum, fæddi barn. Sú kona hafði fengið gjafaegg og hormóna, en Antinori hefur lýst því yfir að hann stefni að því að „framleiða” fyrsta einræktaða barnið.

Elsta kona, sem vitað er til að hafi fætt barn, var Adriana Iliescu frá Rúmeníu, en hún var 66 ára er hún fæddi dótturina Elizu Mariu í janúar á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert