Lagði með hnífi til fólks í Berlín

Fjölmargir fylgdust með flugeldasýningu í miðborg Berlínar í gærkvöldi þegar …
Fjölmargir fylgdust með flugeldasýningu í miðborg Berlínar í gærkvöldi þegar lestarstöðin var tekin í notkun. Reuters

Að minnsta kosti 28 særðust, þar af fjórir alvarlega en þó enginn lífshættulega, þegar unglingspiltur gekk berserksgang í mannþröng í miðborg Berlínar, höfuðborgar Þýskalands, í gærkvöldi og stakk vegfarendur með hnífi. Hljóp pilturinn, sem lögreglan handtók nokkru síðar, eftir götu um klukkan 21:30 í gærkvöldi að íslenskum tíma og lagði til fólks sem var statt á svæðinu þar sem verið var að vígja stærstu lestarstöð í Evrópu.

Lögregla sagði, að pilturinn, sem er 16 ára Þjóðverji, hefði verið handtekinn í gærkvöldi. Hann var í hópi fólks sem var að yfirgefa lestarstöðina eftir mikla ljósasýningu en nokkrum klukkustundum áður en þetta gerðist hafði Angela Merkel, kanslari Þýskalands, tekið lestarstöðina formlega í notkun að viðstöddum um 1000 gestum.

Pilturinn hóf skyndilega að leggja til fólks með hnífi á mjórri götu og gerði það lögreglu og sjúkraflutningafólki erfitt fyrir að komast á staðinn. Margir hinna særðu leituðu sjálfir á sjúkrahús og því er ekki vitað um endanlegan fjölda þeirra, sem hlutu sár.

Mikil skelfing braust út meðal mannfjöldans. Að sögn sjónarvotta gekk pilturinn milli manna og lagði til þeirra. Ekki er vitað hvað honum gekk til og ekki er vitað hvort hann var undir áhrifum vímuefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert