Barátta Bandaríkjastjórnar gegn hryðjuverkum hefur aukið hættuna á hryðjuverkum og beint athygli ráðamanna frá öðrum brýnni framtíðarógnum eins og loftslagsbreytingum, samkvæmt niðurstöðu rannsóknarnefndar Oxford-háskóla. Þá eru stórveldin og þá sérstaklega Bandaríkin hvött til þess að endurhugsa öryggismálastefnu sína og sporna þannig við yfirvofandi átökum og óstöðugleika.
„Baráttan gegn hryðjuverkum er hættuleg truflun og stendur í vegi fyrir því að alþjóðasamfélagið bregðist á árangursríkan hátt við því sem sennilega mun skapa flest átök framtíðarinnar,” segir m.a. í skýrslu nefndarinnar.
Þá segir að þrátt fyrir staðhæfingar bandarískra og breskra ráðamanna um að þeir hafi ekki um annarra kosta völ en berjast gegn hryðjuverkum, með þeim hætti sem þeir hafi gert, liggi fyrir mikið magn upplýsinga sem sýni að baráttuaðferðir þeirra ýti undir frekari hryðjuverkastarfsemi fremur en að þær komi í veg fyrir hana. Þannig hafi hernaðaraðgerðir undir forystu Bandaríkjanna nú staðið í þrjú ár í Írak og fimm ár í Afganistan og þó fari ofbeldi í löndunum sívaxandi, auk þess sem stuðningur við starfsemi talibana og al Qaeda samtakanna virðist fara vaxandi.
Í skýrslunni er einnig varað við því að loftslagsbreytingar, ósætti um nýtingu auðlynda, félags- og efnahagsleg mismunun sé mun meiri ógn við framtíðarfriðinn en hryðjuverkastarfsemi.
Í skýrslunni sem heitir Global Responses to Global Threats: Sustainable Security for the 21st Century er fjallað um viðbrögð yfirvalda við hryðjuverkunum í Bandaríkjunum árið 2001, sprengingunum í Madrid á Spáni árið 2004 og sprengingunum í London á Englandi á síðasta ári.