Ali Larijani, aðalsamningamaður Írana í kjarnorkudeilunni, lýsti því yfir í dag að kröfur Vesturlanda um að Íranar hætti auðgun úrans séu ósanngjarnar en Larijani mun eiga fund með Javier Solana, sem fer með utanríkismál innan framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, á miðvikudag. „Við höfum áður greint frá skoðun okkar og við teljum tilboðið ekki sanngjarnt,” sagði Laijani samkvæmt heimildum írönsku fréttastofunnar Mehr. Vonir hafa staðið til þess að Larijani gefi Solana formlegt svar við tilboði Vesturveldanna á fundinum en sá frestur sem Solana gaf Írönum upphaflega til að svara tilboðinu er þegar útrunninn.
Larijani sagði formlegt svar Írana ekki vera til umræðu og varaði við því að tímatakmarkanir myndu ekki greiða fyrir lausn deilunnar. „Þegar tilboðið hefur verið skoðað munum við tilkynna niðurstöðu okkar,” sagði hann.
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti hefur þegar lýst því yfir að svars Írana sé fyrst að vænta um miðjan ágúst og óttast yfirvöld í Bandaríkjunum og Evrópu og Íranar séu að reyna að tefja tímanna og vinna að kjarnorkuáætlun sinni á meðan. Hamid Reza Asefi, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins, vísaði því hins vegar á bug í gær. „Þetta er ekki spurning um samningatækni og það að eyða tímanum. Þetta er flókið tilboð og það tekur tíma að skoða það,” sagði hann. „Það eru vafamál í því sem þarf að ræða við Evrópumenn.”