Bandaríkin eru búin eða munu á næstu dögum senda stýrisprengjur (e. precision bombs) til Ísraela, samkvæmt vopnasamningi sem ríkin gerðu í fyrra. Ísraelar óskuðu þess að sendingunni yrði flýtt skömmu áður en þeir hófu árásir á suðurhluta Líbanon þann 12. júlí, að sögn bandarísks embættismanns sem vildi ekki láta nafns síns getið í samtali við AFP fréttastofuna.
Ísraelar og Bandaríkjamenn gerðu með sér vopnasamning í fyrra um kaup Ísraela á vopnabirgðum upp á milljarð dollara og að þær yrðu sendar til Ísrael eftir þörfum hersins þar.
Ekki hefur þó fengist staðfest, að öðru leyti en frá fyrrnefndum embættismanni, hvenær Ísraelar óskuðu eftir sendingunni, hvort það var um það leyti sem árásir hófust á Líbanon eða þegar loftárásir voru gerðar á Gaza-svæðið. Embættismaðurinn segir ísraelskir embættismenn hafi samið um sendinguna við utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og aðrar ríkisstofnanir, sem engar yfirlýsingar hafa gefið þess efnis. Talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna segir engar upplýsingar gefnar um sölu vopna til annarra ríkja.
Dagblaðið New York Times fjallaði fyrst um þessa vopnasendingu og mun hafa fengið upplýsingar s.l. föstudag um að sendingu til Ísrael hafi verið flýtt. Times segir ríkisstjórn landsins hafa rætt málið stuttlega og enginn ágreiningur hafi verið um það. Sprengjunum er stýrt af gervihnöttum og leysitækni. Times segir þetta benda til þess að fjöldi skotmarka í Líbanon væri enn á lista Ísraelshers.
Vopnasamningurinn felur í sér að Ísraelar megi kaupa allt að 100 GBU-28 sprengjur af Bandaríkjamönnum, en hver þeirra er tæp 2.300 kg og þeim ætlað að sprengja neðanjarðarbyrgi úr hertri steypu.