Siglingin frá Grundarfirði til Paimpol ekkert sældarlíf

Skútan sem varð fyrst til baka og sigldi á stystum …
Skútan sem varð fyrst til baka og sigldi á stystum heildartíma þrátt fyrir tímavíti var 40 feta skútan Tchuda Popka. mbl.is/Ágúst Ásgeirsson

Tjaldið er fallið, ef svo mætti segja, í skútukappsiglingunni Skippers d’Islande frá Paimpol á Bretaníuskaga í Frakklandi til Reykjavíkur og Grundarfjarðar og til baka. Fyrstu skútan kom í mark á laugardag og síðan tíndust ein af annarri næstu daga en frestur til þess rann svo út síðdegis í gær, miðvikudag. Lentu skúturnar flestar í hrakningum á bakaleiðinni sem var óvenju seinfarin. Glímdu þær við allt að 50 hnúta vind og fjallháar öldur á siglingunni milli Frakklands og Íslands.

Fljótust til heimahafnar eftir að skúturnar voru ræstar af stað í Grundarfirði var 40 feta skúta með nafninu Tchuda Popka. Var hún önnur til Reykjavíkur og hraðskreiðust samanlagt. Og það þrátt fyrir að hálfs annars sólarhrings refsitíma væri bætt við siglingatíma hennar fyrir að laumast á brott frá Grindavík á undan öðrum siglurum sem þar leituðu vars vegna yfirvofandi óveðurs á siglingaleið skútanna suður af Íslandi.

Skúturnar höfðu sammælst um að leggja samtímis upp frá Grindavík og þótti því ekki góð íþróttamennska af skútustjóranum Gwenchlan Catherine að fara fyrr af stað þaðan.

Tchuda Popka, sem mun vera rússneska og útleggjast sem „glæsilegi litli rassinn“, vann flokk sérsmíðaðra 40 feta kappsiglara og var fljótust í þeim flokki á báðum leiðum. Að meðtöldu stoppi í Grindavík var hún 16 daga og tæpar 10 stundir með siglinguna, þar af 6 daga og 12 stundir til Reykjavíkur. Skútan var smíðuð í vetur og vor og sjósett um mánuði fyrir keppni. Ung áhöfn hennar þótti sýna færni í að lesa í veðurkort og herfræði því hún nýtti lægðirnar hagstæðast til að skila sér á mark.

Spíttskútan Vedette Brehat undir stjórn ungrar afrekskonu, Servane Escoffier, sem varð fyrst til Íslands frá Paimpol á 5 dögum og rúmum 13 stundum, vann 50 feta flokkinn. Sigldi hún ein síns liðs til baka til að ávinna sér keppnisrétt í keppninni eftir Rommleiðinni svonefndu síðar í haust. Er þar um margfalt lengri keppnislengd að ræða, frá Frakklandi til Karíbahafsins. Að heildartíma töldum var hún næstfljótust með báðar leiðir.

Nokkrum skútum var siglt einliða til baka og var tilgangurinn að öðlast þátttökurétt í Rommleiðarsiglingunni. Það tókst þeim öllum. Fyrstur þessara „sólóista“ til baka varð Pierre-Yves Chatelin á skútunni Destination Calais, en á henni vann hann Skippers d’Islande siglinguna árið 2003.

Skúta að nafni Armor Crustacés, sem einnig gengur undir bretónska nafninu Diaoul Gwenn eða Hvíti djöfullinn, vann svonefndan IRC-flokk. Hafði hún þar betur m.a. í keppni við tæplega sjötuga slúpu, Khayyam sem varð fyrst í þessum flokki til Reykjavíkur. Skútustjórinn Didier Bellenger steig því á efsta þrep verðlaunapallsins að þessu sinni eftir að hafa orðið í öðru sæti í Íslandssiglingunni bæði árið 2000 og 2003.

Alls hófu 19 skútur keppni en ekki höfðu allar skilað sér á mark er tjaldið féll á keppendur. Og sumar lentu í ýmiss konar hremmingum. Sjálfstýring bilaði á skútunni Aswakh svo skútustjórinn sem var einn um borð leitaði til Reykjavíkur. Tók niðri við Akurey en slapp vel frá því atviki. Hann ákvað svo að fljúga heim og fá aðra til að sigla skútunni til baka svo hann kæmist í tæka tíð í brúðkaup dóttur sinnar.

Neysluvatnið þraut fljótt vegna leka
Skipverjar á skútunni Port de Gravelines, fulltrúi bæjarins Gravelines á Flandri þaðan sem mjög var sótt á fiskimið við Ísland á öldum áður, urðu fyrir því að neysluvatnstankurinn var orðinn tómur eftir tveggja daga siglingu frá Grindavík. Gat hafði myndast á slöngu í tankinn svo hann tæmdist án þess að þess yrði vart fyrr en tómur var orðinn. Urðu skipverjar því að svala þorstanum á bjór og öðrum guðaveigum þá viku sem eftir var í heimahöfn.

Siglingin til baka til Frakklands tók skúturnar miklu lengri tíma en áætlað hafði verið en lélegur byr var á leiðinni í kjölfar óveðursins sem leitað var undan til Grindavíkur. Vegna þessa voru vistir orðnar litlar eða engar á lokasprettinum um borð í magri skútunni. Keppnin fór nú fram í þriðja sinn og er orðin fastur liður í úthafskappsiglingum. Til hennar hefur verið efnt á þriggja ára fresti og er þegar ráðgert að hún fari fram fjórða sinni árið 2009.

Að sögn Michèle Le Reun-Gaigné blaðafulltrúa keppninnar líður þátttakan seint úr minni þeirra 150 manna sem viðsögu kappsiglingarinnar komu. Hafi þeir á glímunni við Ægi og Kára verið hugsað til frönsku fiskimannanna sem sóttu á Íslandsmið á öldum áður, oft á tíðum við ólýsanlega erfiðar aðstæður og komu ekki allir til baka. Áttuðu skútusiglararnir sig á því að sóknin á Íslandsmið til forna var ekkert sældarlíf. Er skútukeppnin haldin til að halda sögu frönsku Íslandssjómannanna og minningu á lofti.

Gísli og Baldvin sæmdir heiðursborgaratign í Paimpol
Mikil útgerð var á sínum tíma frá Paimpol á Íslandsmið á 19. öld og fram á þá tuttugustu. Þar er minningunni um siglingarnar haldið á lofti. Götur, veitingahús og fleira eru kennd við Ísland eða Íslandssjómennina og af opinberri hálfu er Paimpol sagður bær Íslendinganna. Bæjarbúum er kært um allt er viðkemur þessari sögu og í heiðursskyni við veitta aðstoð hafnaryfirvalda og íslenskra skútusiglara við framkvæmd keppninnar Skippers d’Islande voru tveir fulltrúar þessara sæmdir heiðursborgaratign í Paimpol í gær. Annars vegar Gísli Gíslason framkvæmdastjóri Faxaflóahafna og hins vegar Baldvin Björgvinsson skútustjóri á skútunni Bestu. Hann tók m.a. þátt í keppninni 2003 og var þá fljótastur til Paimpol frá Reykjavík.

Gísli Gíslason fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi og Baldvin Björgvinsson skútustjóri …
Gísli Gíslason fyrrverandi bæjarstjóri á Akranesi og Baldvin Björgvinsson skútustjóri voru gerðir að heiðursborgurum í Paimpol í þakklætisskyni við hjálpsemi Íslendinga við framkvæmd keppninnar. mbl.is/Maggi Ara
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert