Norskur námsmaður ákærður fyrir að kasta köku í ráðherra

Kristin Halvorsen (t.v.), fjármálaráðherra Noregs, sést hér ásamt Jens Stoltenberg …
Kristin Halvorsen (t.v.), fjármálaráðherra Noregs, sést hér ásamt Jens Stoltenberg forsætisráðherra og Aslaug Haga, leiðtoga Miðflokksins. Reuters

Norskur námsmaður, sem kastaði rjómaköku í Kristin Halvorsen, nýjan fjármálaráðherra landsins, í október í fyrra, hefur verið ákærður fyrir líkasárás á opinberan embættismann og á yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.

Námsmaðurinn beið utan við fjármálaráðuneytið í Ósló þegar Halvorsen kom þangað til vinnu daginn sem hún var skipuð fjármálaráðherra. Maðurinn nálgaðist ráðherrann með köku í hönd og Halvorsen gerði sér grein fyrir hvað til stóð. Hún snéri sér því við og í því lenti kakan aftan á hálsi hennar.

Maðurinn, sem er 24 ára gamall, hefur nú verið ákærður fyrir að koma í veg fyrir að ráðherra geti gegnt skyldustörfum, fyrir líkamsárás og fyrir að ógna embættismanni.

Blaðið VG hefur eftir manninum, sem hefur síðan hætt háskólanámi, að hann hefði ætlað með aðgerðum sínum að vekja upp umræðu um það hvort vinstriflokkur ætti að ráða yfir fjármálaráðuneytinu en Halvorsen er leiðtogi Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi.

Að sögn ríkissaksóknara Noregs er gert ráð fyrir að réttarhöldin verði í október og hefur Jens Stoltenberg, forsætisráðherra, verið kvaddur til sem vitni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert