Upplýsingar um aðgerðir Ísraelshers ritskoðaðar af sérstökum starfsmanni

Loftárásum Ísraelshers á Suður-Líbanon linnir ekki.
Loftárásum Ísraelshers á Suður-Líbanon linnir ekki. Reuters

Ísraelsher er með sérstakan starfsmann sem ritskoðar allar fréttir af aðgerðum hersins. Sá er kona og heitir Sima Vaknin, og segist hún hafa ,,gríðarlegt vald" þegar kemur að fréttaflutningi. Hún geti þaggað niður í fjölmiðli, hindrað að upplýsingar berist fjölmiðlum og stungið fjölmiðlamönnum í fangelsi.

Vitnað er í viðtal AP við hana á nokkrum fréttasíðum, m.a. CBSNEWS. Ísrael trúi því að sem smáríki, sem á í stöðugri baráttu við önnur ríki eða hreyfingar, eigi það rétt á því að stjórna því hvaða upplýsingar berist fjölmiðlum um hernað þess þar sem það sé spurning um þjóðaröryggi.

Þannig viti Hizbollah-hreyfingin ekki hvert eigi að skjóta eldflaugum. AP-fréttastofan er sögð hafa samþykkt þá skilmála, líkt og aðrar fréttastofur, að fá upplýsingar frá þessum ritskoðara því annars megi fréttastofurnar ekki starfa í Ísrael.

Fréttamenn mega m.a. ekki veita upplýsingar um eldflaugaskot skæruliða, hvar eldflaugar lendi í Ísrael, fyrr en nokkru eftir að árásin hefur verið gerð og ekki megi greina frá því hvort þær hafi hæft hernaðarleg skotmörk. Ekki má heldur segja frá því ef ísraelskir embættismenn fara til Norður-Ísrael svo Hizbollah viti ekki af því. Cnews fréttavefurinn greinir frá þessu meðal annarra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert