SÞ fordæma loftárás Ísraelsmanna á Qana

Starfsmaður Rauða krossins ber barnslík út úr rústum í þorpinu …
Starfsmaður Rauða krossins ber barnslík út úr rústum í þorpinu Qana í morgun. Reuters

Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu í dag loftárás Ísraelsmanna á þorpið Qana í suðurhluta Líbanons í morgun, en að minnsta kosti 57 manns, þar af yfir 30 börn, létu lífið þegar flugskeyti lenti á byggingu þar sem um 100 þorpsbúar höfðu leitað skjóls undan árásunum. Javier Solana, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði í dag að ekkert réttlætti árás Ísraelsmanna á þorpið og talsmaður Bandaríkjastjórnar hvatti í morgun Ísraelsmenn til að gæta hófs í aðgerðum sínum í Líbanon.

Fleiri ríki hafa fordæmt árásina, þar á meðal Svíar.

„Ég hef rætt við forsætisráðherra Líbanons, Fuad Siniora. Ég hef lýst miklum áhyggjum og harmi vegna árásarinnar og dauða saklausra borgara í Qana. Ekkert getur réttlætt það," sagði Solana í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag. „Ég hef sagt honum, að Evrópusambandið vinnur að því að koma á tafarlausu vopnahléi."

Geir Pedersen, sérlegur sendimaður Kofis Annans, framkvæmdastjóra SÞ, sagðist harmi sleginn vegna þess að tugir líbanskra borgara hefðu látið lífið. Sagðist hann í yfirlýsingu krefjast tafarlauss vopnahlés og rannsóknar á atburðunum.

Blaine Rethmeier, talsmaður Hvíta hússins, sagði að atburðirnir í morgun hefðu ekki breytt afstöðu Bandaríkjastjórnar og Bandaríkin héldu áfram að hvetja Ísraelsmenn til að gæta hófs. Hins vegar hefðu Ísraelsmenn rétt til að verja sig.

Árið 1996 gerðu Ísraelsmenn árás á bækistöðvar Sameinuðu þjóðanna í Qana og þá létu lífið 105 manns, sem leitað höfðu þar skjóls undan aðgerðum Ísraelsmanna, sem nefndar voru Þrúgur reiðinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert