Bush les Camus og Shakespeare

Fréttamaður Reuters spurði George W. Bush að því í gær hvort satt væri að hann væri farinn að lesa bækur franskra heimspekinga, en Bush var þá staddur í New Orleans þar sem eitt ár var liðið frá því fellibylurinn Katrína gekk þar yfir með skelfilegum afleiðingum. Bush svaraði „Útlendinginn," og átti þar við bók franska heimspekingsins Albert Camus sem heitir á ensku The Stranger. ,,Ég var í Crawford (í Texas) og sagðist vera að leita að bók til að lesa og Laura (eiginkona Bush) sagði að ég ætti að prófa að lesa Camus. Ég las líka þrjú verk Shakespeare," sagði Bush.

Fréttamaðurinn benti Bush þá á að fyrir nokkrum mánuðum hefði hann verið að lesa ævisögu hafnaboltakappans Joe Dimaggio. ,,Það var góð bók," svaraði Bush og bætti því við að hann sé að lesa um bardagann við New Orleans, sem var háður 1815 milli Breta og Bandaríkjamanna. ,,Bókalistinn minn er heimspekilegur," sagði Bush. Hann hefði klárað bók Camus fyrir nokkru. Bush lauk samtalinu á illskiljanlegum nótum með því að segja: „Ég skal, ég skal... sjáðu til, það er lykilatriði fyrir mig að halda væntingum í lágmarki."

Útlendingurinn segir af manni sem er samfélagslega einangraður og fremur morð og bíður síðan aftöku fyrir þær sakir. Á Vísindavef Háskóla Íslands segir: „Albert Camus hélt því fram að manneskjan væri það eina í þessum heimi sem óskaði sér þess að vera eitthvað annað en hún er. Lífið er sjaldnast nógu gott og leitin að hinu góða lífi, eða í það minnsta betra lífi, stendur ávallt yfir.

Að finna til fjarstæðukenndar er hlutskipti margra okkar, ef ekki allra, einhvern tímann á lífsleiðinni, og felst hún í því að við óskum okkur einhvers sem við ekki getum fengið eða, eins og hann orðaði það sjálfur, þá “mætir hugur sem þráir heimi sem veldur vonbrigðum”. Við eigum að leitast við að beita vitsmunum okkar til að skapa heim merkingar og tilgangs. Þessi hugsun er einkennandi fyrir tilvistarspekingana."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka