Vilja fjölga hermönnum um tvö þúsund í Afganistan

AP

Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins, NATO, ræða á fundi sínum í Varsjá í Póllandi hvernig hægt verður að fjölga í herliði NATO í Afganistan. Telur James L. Jones, yfirherforingi NATO, að fjölga þurfi hermönnum um tvö þúsund í Afganistan. Ástandið í Afganistan hefur ekki verið jafn slæmt frá því að innrásin, undir stjórn Bandaríkjahers, var gerð í nóvember 2001.

Talsmaður NATO sagði í samtali við AP fréttastofuna að á fundinum í Varsjá væri meðal annars verið að ræða fjölgun í herliði NATO í Afganistan en ekki væri víst að lausn fyndist á málinu á fundinum þar sem varnarmálaráðherrar NATO ríkjanna yrðu að ræða við sínar ríkisstjórnir áður en ákvörðun væri tekin um að senda aukinn herafla.

Um tuttugu þúsund hermenn eru í Afganistan á vegum NATO og svipaður fjöldi bandarískra hermanna er í landinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert