Forseti Frakklands, Jacques Chirac, átti fund með íranskri sendinefnd á vegum Mahmoud Ahmadinejad, forseta Írans, í gærkvöldi í París. Ekkert hefur verið gefið upp um hvað var rætt á fundinum. Einungis að mikilvæg málefni tengd Miðausturlöndum hafi verið rædd.
Chirac hefur ítrekað við Javier Solana, yfirmann utanríkismála hjá Evrópusambandinu, stuðning Frakka við að þrýst sé á að Íranar hætti öllum kjarnorkutilraunum.
Solana mun hitta Ali Larijani, helsta samningamann Írana í deilu um kjarnorkutilraunir landsins, á morgun. Ekki hefur verið gefið upp hvar fundurinn verður haldinn en París hefur verið nefnd sem mögulegur fundarstaður.