Ræða páfa vekur reiði meðal múslíma

Ummæli sem Benedikt páfi lét falla um Múhameð spámann í …
Ummæli sem Benedikt páfi lét falla um Múhameð spámann í ræðu í vikunni hafa farið fyrir brjóstið á múslímum víða um heim. AP

Trúarleiðtogar múslíma hafa sakað Benedikt páfa um að hafa látið falla niðrandi ummæli um íslamstrú í ræðu sem hann flutti í þýskum háskóla í vikunni. Páfi, sem setti spurningarmerki við hugmyndina um heilagt stríð, vitnaði í orð kristins keisara frá 14. öld sem sagði að Múhameð spámaður hafi fylgt ekkert nema „illska og grimmd“.

Pakistanskur fræðimaður á sviði íslamstrúar, Javed Ahemd Gamdi, segir að „jihad“, eða heilagt stríð, gangi ekki út á það að breiða út íslamstrú með sverðinu.

Æðsti trúarleiðtogi Tyrklands hefur krafist þess að beðist verði afsökunar á þessum „fjandsamlegu“ ummælum páfa.

Í indverska hluta Kasmír-héraðs lagði lögregla hald á dagblöð sem greindu frá ummælum páfa. Tilgangurinn með þessum aðgerðum lögreglu var að koma í veg fyrir að spennuástand myndaðist á svæðinu.

Frederico Lombardi, talsmaður páfagarðs, segist ekki trúa því að ummæli páfa hafi verið hugsuð sem hörð gagnrýni á íslamstrú.

Í ræðu sinni skoðaði Benedikt páfi mismuninn á milli íslamstrúar og kristinnar trúar út frá sögulegu og heimspekilegu samhengi. Þá ræddi hann tengsl ofbeldisverka og trúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert